Ríkið veitir stofnframlög til 8 íbúða á Vestfjörðum

Hólmavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hefur úthlutað ríflega 3,6 milljörðum króna í stofnframlög til byggingar og kaupa á 600 hagkvæmum leiguíbúðum víðsvegar um landið, svokallaðra almennra íbúða. Leiguíbúðirnar verða í 15 sveitarfélögum en meginþorri þeirra verða á höfuðborgarsvæðinu. Fjármunirnir eru hugsaðir til að styðja við framboð ódýrra leiguíbúða fyrir almenning og verða nýttir til byggingar á 438 íbúðum og kaupa á 162 íbúðum.

80 m.kr ríkisstyrkur

Á Vestfjörðum var úthlutað til byggingar á 8 íbúðum, 4 á Bíldudal og 4 á Hólmavík. Stofnframlag ríkisins er 18% og verður 48,8 milljónir króna og við það bætist sérstakt byggðaframlag 30,5 milljónir króna sem heimilt er að veita þar sem skortur er á leiguhúsnæði og bygging íbúða hefur verið í lágmarki vegna misvægis á milli byggingarkostnaðar og markaðsverðs íbúðarhúsnæðis. Samtals leggur ríkið fram nærri 80 milljónir króna af 260 milljóna króna framkvæmdakostnaði sem er um 30%. Til viðbótar framlagi  ríkisins leggur sveitarfélagið fram 12% af kostnaðinum sem verður um 31 m.kr. Stofnuð vera sérstök húsnæðiseignarfélög á hvorum stað utan um íbúðirnar. Meðalkostnaður á íbúð er samkvæmt þessum tölum 32,5 m.kr.

Ætlunin með stofnframlögunum er að slá á þann mikla húsnæðisvanda sem lægri og millitekjuhópar hafa mátt stríða við undanfarin ár. Fólk sem leigir íbúð í kerfinu þarf ekki að verja jafn stórum hluta af ráðstöfunartekjum heimilisins til húsnæðis og það myndi í mörgum tilfellum gera á frjálsa leigumarkaðnum og býr við meira öryggi því ekki er hægt að segja upp leigunni nema að ýmsum skilyrðum uppfylltum.

Framlög til íbúða í 15 ólíkum sveitarfélögum
Alls fengu 15 sveitarfélög úthlutað stofnframlögum en flestar af íbúðunum 600 eru á höfuðborgarsvæðinu, eða 472. Þá eru átta íbúðir á Austurlandi, 14 á Norðurlandi eystra, 13 á Norðurlandi vestra 10 á Suðurlandi, 12 á Suðurnesjum, 8 á Vestfjörðum og 63 á Vesturlandi.

Sem stuðning við lífskjarasamningana ákvað ríkisstjórnin að auka framlögin til almenna íbúðakerfisins um 2,1 milljarð árlega á árunum 2020 til 2022 til þess að flýta fyrir uppbyggingu á hagkvæmu húsnæði og stuðla að auknu húsnæðisöryggi leigjenda.

Heildarfjárfesting tæplega 20 milljarða króna 

Ljóst er að stofnvirði þeirra verkefna sem samþykkt voru í þessari úthlutun fela í sér fjárfestingu á húsnæðismarkaði upp á tæplega 20 milljarða króna. Þar af fara tæpir 14 milljarðar í uppbyggingu á hagkvæmu húsnæði og 6 milljarðar í kaup.

DEILA