Reykjanes: deilt um gjald fyrir heita vatnið

Í gær hittust Birgir Gunnarsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og Jón Heiðar Guðjónsson eigandi ferðaþjónustunnar í Reykjanesi. Að sögn Birgis vill Ísafjarðarbær leggja sitt af mörkum til að leysa úr máli ferðaþjónustunnar og hefur þess vegna lagt til að þeir þrír aðilar sem aðild eiga að því, Ísafjarðarbær, ferðaþjónustan og Orkubú Vestfjarða  finni á því farsæla lausn.

Birgir segir að málið verði ekki leyst nema með aðkomu Orkubúsins.

„Deilan snýst um aðgengi að auðlindinni og hvernig gjaldtöku skuli háttað. Stærsti hluti málsins er að leysa úr því hvernig aðgengi skuli háttað að heita vatninu og hvernig skuli greitt fyrir það. Það er úrlausnarefnið og þess vegna er svo mikilvægt að þessir þrír aðilar einsetji sér að finna farsæla lausn fyrir alla aðila málsins. En ég held að það séu allir tilbúnir til að finna eðlilega og sanngjarna leið til að leysa þann hnút sem málið er í.“ segir Birgir Gunnarsson.

Haft var samband við Jón Heiðar Guðjónsson en hann vildi ekki ræða við Bæjarins besta.

DEILA