Patreksfjörður: Skjald­borg – Hátíð íslenskra heim­ilda­mynda

Skjaldborg – hátíð íslenskra heimildamynda verður haldin á Patreksfirði yfir verslunarmannahelgina dagana 31. júlí – 3. ágúst.

Hátíðin var stofnuð árið 2007 og hefur síðan þá verið eini sérhæfði vettvangurinn fyrir frumsýningu íslenskra heimildamynda hér á landi.

Fagið og hátíðin hafa vaxað og dafnað hönd í hönd og er óhætt að segja að Skjaldborgarbíó og Patreksfjörður séu orðin að heimili íslenskra heimildamynda.

Umhverfið, gestirnir og heimamenn hafa í gegnum árin skapað aðstæður sem mynda einstakt andrúmsloft og samveru. Hátíðin leiðir saman reynslubolta í faginu, byrjendur og hinn almenna áhorfanda en þannig stuðlar hún að skemmtilegu og skapandi samtali sem gegnir mikilvægu hlutverki fyrir þróun og miðlun íslenskrar heimildamyndagerðar.

Auk þess að frumsýna íslenskar myndir sinnir hátíðin heimildamyndagerð á heimsvísu. Frá upphafi hefur mikið púður verið lagt í að fá á hátíðina erlenda heiðursgesti sem eru stór og mikilvæg nöfn í heimildamyndagerð á alþjóðavísu. Verk heiðursgesta eru sýnd utan keppnisdagskrár og haldin er masterclass með viðkomandi höfundi. Á þennan hátt dýpkar hátíðin enn frekar hlutverk sitt sem þróunarvettvangur fyrir verkefni, leiktjóra og áhugafólk um heimildamyndir á Íslandi.

Á dagskrá eru einnig fjölmargir aðrir dagskrárliðir t.d. verk í vinnslu, matarveislur, ball og annað skemmtanahald alla daga hátíðarinnar.

Þær íslensku heimildamyndir sem sýndar eru á hátíðinni keppa um tvenn verðlaun; áhorfendaverðlaunin Einarinn, sem hafa verið veitt frá upphafi, og dómnefndarverðlaunin Ljóskastarann, sem kynnt voru til leiks árið 2017.

Það þykir orðinn gæðastimpill að komast inn á hátíðna en verðlaunamyndir hátíðarinnar hafa oftar en ekki verið tilnefndar til Edduverðlaunanna í kjölfarið og margar unnið til alþjóðlegra kvikmyndaverðlauna.

UPPHAFIÐ

DEILA