Knattspyrnan: Hörður leikur í dag og Vestri á morgun

Hörður Ísafirði sem leikur í 4. deild karla D riðli tekur á móti liði Kríunnar á Skeiðisvelli kl 14 í dag. Krían er knattspyrnulið frá Seltjarnarnesi.

Í riðlinum eru 8 lið og er Krían í 4. sæti eftir 4 leiki með 8 stig. Hörður er í 5. sæti eftir 3 leiki með 3 stig, hefur unnið einn leik en tapað tveimur.

 

Vestri, sem leikur í 1. deild fær Þrótt Reykjavík í heimsókn til Ísafjarðar á morgun í 5. umferð deildarinnar. Leikurinn hefst kl 14.  Í vikunni vann Vestri frækinn sigur á toppliði Þórs frá Akureyri og það fyrir norðan.

Liðið verður eitthvað laskað á morgun. Elmar Atli Garðarsson meiddist og verður frá í nokkrar vikur. Vladimir Tufegdzic fékk rautt spjald og verður í leikbanni og svo eru meiðsli að hrjá leikmenn eins og Pétur Bjarnason og fleiri.

Vestri er í 8. sæti deildarinnar með 4 stig og Þróttur er í 11. og næstneðsta sæti án stiga eftir fjóra tapleiki.

Leikurinn verður að sjálfsögðu í þráðbeinni hjá Viðburðastofa Vestfjarða, hægt er að nálgast útsendinguna hérna: https://www.youtube.com/watch?v=b-HOxVLcNkI

DEILA