Í listinn spyr um uppsagnir

Bæjarfulltrúar Í listans. nanný Arna lengst til hægri. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Nanný Arna Guðmundsdóttir fulltrúi Í listans í bæjarráði Ísafjarðarbæjar lagði fram á bæjarráðsfundi í morgun fyrirspurnir um niðurlagningu tveggja starfa hjá bænum.

Spurt  er um valdheimildir bæjarstjóra til þess að leggja niður störfin og hvort unnið sé að nýju skipuriti fyrir umhverfis- og skipulagssvið auk fleiri spurninga.

Bókunin í heild:

„Þær skýringar sem gefnar hafa verið á uppsögnunum er að ekki sé um eiginlegar uppsagnir að ræða heldur niðurlagningu starfa í samræmi við tillögur í Stjórnsýsluúttekt HLH ehf sem gerð var veturinn 2019 – 2020 og kynnt fyrir bæjarfulltrúum á fundi 7.maí 2020. Það skal áréttað að tillögur skýrslunnar voru aðeins kynntar fyrir bæjarfulltrúm, engar tillögur hafa verið lagðar fram til samþykkis og enginn umræða hefur átt sér stað varðandi þær.

Í lokaorðum skýrsluhöfunda segir: “Samkvæmt þeim tillögum, sem hér eru settar fram, þarf að grípa til ýmissa aðgerða, sem m.a. munu leiða til breytinga á starfsmannahaldi. Mikilvægt er, þegar grípa þarf til slíkra aðgerða, að samstaða sé innan sveitarstjórnar á milli meiri – og minnihluta um þær. Slík samstaða er mikilvæg við framgang verkefnisins og ekki hvað síst fyrir íbúa sveitarfélagsins og starfsmenn.

Fram kemur í “uppsagnarbréfum” þessarra starfsmanna að störf þeirra verði lögð niður og því sé ekki um eiginlega uppsögn að ræða. Ekki liggur fyrir nýtt skipurit fyrir Umhverfis og eignasvið og ekki liggur ljóst fyrir hvaða starfsmenn innan sviðsins munu taka að sér þau verkefni sem umsjónarmaður eignarsvið sinnti, en hann hefur m.a. séð um gerð útboðsgagna vegna viðhalds á eignum sveitarfélagins og umhverfisfulltrúi sem hefur hefur haldið utan um málefni umhverfisins innan sveitarfélagsins, t.d. áætlanir og mælingar, verið eftirlitsmaður sveitarfélagsins varðandi sorpsamning, unnið með Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða og séð um ýmsar mælingar fyrir er tengjast losun mengandi úrgangs og efna fyrir t.d. Skipulagsstofnun, Hafrannsóknarstofnun og Umhverfisstofnun.

Í bæjarmálasamþykkt Ísafjarðarbæjar kemur fram að “bæjarstjórn fari með yfirstjórn stofnana og fyrirtækja á vegum sveitarfélagsins að svo miklu leyti sem bæjarstjórn hefur ekki falið öðrum slíka yfirstjórn”

Niðurlagning tveggja starfa á umhverfis- og eignasvið er stefnubreyting og krefst umræðu og samþykkt í bæjarstjórn og ekki hægt að líta á þennan gjörning sem eðlilega starfsmannaveltu.

Því vill fulltrúi Í-listans í bæjarráði fá upplýsingar um:

1. Hvaða valdheimildir bæjarstjóri notaði til að leggja niður tvö störf án umræðu og samþykktar í bæjarstjórn?
2. Er verið að vinna í nýju skipuriti fyrir umhverfis og eignarsvið? Undir hvaða starf munu verkefni Eignarsjóð falla?
3. Hvernig sér meirihluti bæjarstjórnar fyrir sér að fylgja eftir umhverfisstefnu Ísafjarðarbæjar, markmiðum Earth Check, Grænu skrefunum, og markmiðum Sameinuðu þjóðanna í umhverfis og loftslagsmálum?
4. Hvernig ætla meirihluti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar að rökstyðja það að með því að leggja niður starf umhverfisfulltrúa sveitarfélagsins sé ekki verið að minnka vægi umhverfismála hjá sveitarfélaginu?
5. Eru uppi hugmyndir um að bjóða út hluta ef þeim verkefnum sem umsjónarmaður eignarsjóðs sá um t.d. útboðsgerð og eftirlit með útboðsvinnu vegna viðhalds á eigum sveitarfélagins?

Einnig óskar fulltrúi Í –listans í bæjarráði eftir að fá eftirfarandi upplýsingar.

Því hefur verið haldið fram að yfirmaður eignarsjóðs hafi í nokkur ár óskað eftir starfslokum, m.a. í tölvupósti bæjarstjóra til bæjarfulltrúa þann 29.júní 2020. Við óskum eftir að fá að sjá gögn sem styðja þá fullyrðingu.
Einnig hefur því verið haldið fram að viðkomandi starfsmaður hafi ætlað sér að hætta í síðasta lagi við 65 ára aldur. Við óskum eftir að sjá gögn sem styðja þá fullyrðingu.“

DEILA