Húsnæðismál: 43 m.kr. í sérstakt byggðaframlag

Nýja raðhúsið á Reykhólum. Mynd: Reykholahreppur.

Húsnæðis- og Mannvirkjastofnun hefur veitt þremur sveitarfélögum á Vestfjörðum 43 milljónir króna í sérstakt byggðaframlag til þess að  byggja leiguíbúðir með þeim rökum að skortur er á leiguhúsnæði og bygging íbúða hefur verið í lágmarki vegna misvægis á milli byggingarkostnaðar og markaðsverðs íbúðarhúsnæðis.

Byggðaframlagið kemur til viðbótar 18% stofnframlagi ríkisins og 12% framlagi sveitarfélaganna.

Nýtt lagaákvæði heimilar styrki til byggingarverkefna á landsbyggðinni

Heimild til að úthluta sérstökum byggðarframlögum var veitt með breytingu á lögum um almennar íbúðir í desember síðastliðnum. Ákveðið var að ráðast í breytinguna í kjölfar landsbyggðarverkefnis HMS og nokkurra sveitarfélaga á landsbyggðinni sem örvaði uppbyggingu á þeim svæðum sem það tók til. Það er HMS sem metur þörf og ákvarðar fjárhæð byggðarframlagsins sem tekur m.a. mið af markaðsaðstæðum á hverjum stað.

Anna Guðmunda Ingvarsdóttir, aðstoðarforstjóri HMS: „Mikil stöðnun hefur verið í húsnæðismálum víða um land, þar sem lítið og víða jafnvel ekkert hefur verið byggt á síðustu árum. Erfið fjármögnun og misvægi milli húsnæðisverðs og byggingarkostnaðar hefur valdið þessu en byggðarframlögin eru einmitt ætluð til að bæta úr þeirri stöðu. Við fórum af stað með landsbyggðarverkefnið til að bregðast við húsnæðisvanda á landsbyggðinni og örva uppbyggingu á þeim svæðum sem verkefnið tók til. Á grundvelli reynslunnar af landsbyggðarverkefninu var bætt við lögin að HMS gæti veitt sérstök byggðarframlög þar sem skilyrði á markaði réttlæta slíkan stuðning. Byggðarframlögin eru ofan á stofnframlög sem eru veitt til byggingar á hagkvæmu húsnæði fyrir lægri og millitekjuhópa og jafna þannig möguleika landsbyggðarinnar á að njóta þess stuðnings sem ríki og sveitarfélög hafa veitt síðustu ár. „

 

Alls var úthlutað 138 milljónum króna í sérstakt byggðarframlag til átta byggingarverkefna á landsbyggðinni. Er þetta í fyrsta sinn sem byggðaframlagi er úthlutað.

Sveitarfélögin eru Vesturbyggð, Strandabyggð og Reykhólahreppur. Byggaframlagið er 15,7 m.kr. í Vesturbyggð, 14,8 m.kr. í Strandabyggð og 12,1 m.kr. í Reykhólahreppi.

DEILA