Fornminjafélag Súgandafjarðar byggir landnámsskála í botni Súgandafjarðar

Í tengslum við byggingu landnámsskálans mun Fornminjafélagið, í samstarfi við Kristínu Auði Kelddal Elíasdóttir hleðslumann og skrúðgarðyrkjumeistara, standa fyrir námskeiði í grjót- og torfhleðslu dagana 4.- 6. ágúst. Kristín mun stjórna verkinu og leiðbeina um handbragðið við hleðsluna en hún er einn af reyndari hleðslumönnum landsins.

 

Á námskeiðinu verður m.a. kennt hvernig á að velja mýri til að taka torf úr, hvernig á að stinga klömbru úr mýri, hvernig er hlaðið með klömbru, val á steinum í hleðslu og steinhleðslu með og án strengs.

 

Verð fyrir námskeiðið er kr. 25.000. Ekki er innifalinn matur eða hugsanleg gisting.  Áhugasamir hafi samband við Eyþór Eðvarðsson í eythor@thekkingarmidlun.is eða í síma 892 1987.

Tilgangur námskeiðsins er að varðveita hið gamla handbragð og aðferð sem fyrstu hús á Íslandi voru byggð eftir.

 

Skálinn er teiknaður af arkitektastofunni Argos en hún teiknaði einnig skálann á Eiríksstöðum og í Brattahlíð á Grænlandi. Um er að ræða tilgátuhús byggt á fornleifauppgreftri á Grélutóftum í Arnarfirði.  Guðmundur Ólafsson fornleifafræðingur, sem var einn þeirra sem vann að fornleifauppgreftrinum á Grélutóftum, hefur verið til ráðgjafar við verkefnið í samvinnu við arkitektana sem hafa þurft að finna útfærslu á hlutum eins og loftræstingu, hæð á veggjum, þaki, hurðum, anddyri o.fl.  En Guðmundur hefur verið tengdur flestum þeim skálabyggingum sem hafa verið byggðar á Íslandi.

 

Verkefnið verður unnið í þremur hlutum. Í sumar verður lokið við fyrsta hluta verkefnisins sem er að ljúka við að hlaða veggi skálans úr klömbru auk þess að hlaða grjótvegg að hluta í kringum skálann. Á næsta ári verður svo farið í að smíða grindina, setja á þak og loka húsinu. Í þriðja hlutanum verður farið í að smíða það sem þarf inn í skálann.  Skálinn verður tileinkaður Hallvarði súganda landnámsmanni í Súgandafirði og mun verða öllum opinn sem hafa áhuga á að kynna sér sögu og menningu Vestfjarða.

Fjöldi þátttakenda er takmarkaður. Sjá má myndir frá síðasta námskeiði

DEILA