Fífustaðadalur: endurheimt votlendis heimilað

Bíldudalur, séð til vesturs, Ketildalir, Arnarfjörður. Vesturbyggð. Mynd: Mats Wibe Lund.

Skipulags- og umhverfisráð Vesturbyggðar hefur heimilað skipulagsfulltrúa  að veita framkvæmdaleyfi fyrir endurheimt votlendis á um 57 hektara svæði á jörðinni Fífustöðum í Fífustaðadal, Arnarfirði. Áætlaður verktími er í ágúst og september 2020.

Það var Votlendissjóður sem sótti um framkvæmdaleyfi að beiðni landeigenda.

Samkvæmt erindinu eru skurðir á því svæði sem áætlað er að endurheimta votlendi á um 12,4 km að heildarlengd. Fyrirhugað er að fylla upp í hluta þessara skurða að fullu með gömlum uppgreftri sem að þeim liggur en í öðrum skurðum er áætlað að gera litlar „stíflur“ með reglulegu millibili. Áhersla verður lögð á að vanda til verka, þjappa efni vel ofan í skurðstæði svo að fyllingar skolist ekki til og eins að taka til hliðar gróður úr skurðum og ofan af ruðningum til að þekja yfirborð rasksvæða og flýta þannig fyrir uppgræðslu þeirra.

Endurheimt votlendis fellur ekki undir lög um mat á umhverfisáhrifum samkvæmt því sem Skipulagsstofnun hefur gefið út.

Umhverfis- og skipulagsráðið leggur til við framkvæmdaraðila að framkvæmdin verði þannig útfærð að ekki myndist slysagildrur fyrir dýr og menn.

DEILA