Ekkert fiskeldi í Eyjafjörð. Af því bara !

Nýlega hafa sveitarfélög og umhverfisverndarsamtök lagt til að Eyjafjörður verði friðaður fyrir sjókvíaeldi. Talið er að lífríki í firðinum sé í húfi og náttúran skuli njóta vafans. Í umræðunni er fátt tiltekið sem hönd er á festandi. Umræðan virðist hverfast um tilfinningar og fagurfræði, sem þó vissulega eiga fullan rétt á sér.

Hér í þessu greinarkorni vil ég reyna að dýpka umræðuna og leggja fram upplýsingar sem hönd er á festandi og hægt er að rífast um. Hér er fjallað um haffræði og líffræði Eyjafjarðar sem er allvel rannsakað efni og nálgast má heimildir hjá höfundi. Rétt er þó að nefna að Hafrannsóknastofnun, sjómælingar hjá Landhelgisgæslu, vatnamælingar hjá Veðurstofu Íslands og Háskólinn á Akureyri hafa staðið fyrir umfangmestu rannsóknunum sem hér er stuðst við.

Eyjafjörður er stór 

Eyjafjörður er með stærstu fjörðum landsins og sumir segja stærsti eiginlegi fjörðurinn, ef frá er skilinn Breiðafjörður (Djúp og Flóar eru jú ekki firðir !). Eyjafjörðurinn er um 58 km langur og 15 km breiður í fjarðarminni. Heildarflatarmálið er áætlað 422 km2 (sunnan 66°10 N). Fjarðarminnið er opið móti úthafinu þar sem mesta dýpi er 215 m. Enginn dýpisþröskuldur er í minni fjarðarins og eru sjóskipti því svo til óheft við úthafið. Djúpáll gengur inn fjörðinn og mesta dýpið er austan við Hrísey, inn undir Grenivík, þar sem dýpið er ennþá um 100 m. Áfram grynnkar rólega og þrengist eftir því sem innar gengur. Út af Arnarnesi, innan við Rauðuvík, þrengist djúpállinn mikið og er mesta sjávardýpið 70 m. Innan við hrygginn dýpkar fjörðurinn á ný og breikkar. Innan við Hjalteyri er dýpið víða um 75-90 m fram undir Hörgárgrunn. Mesta er þó dýpið í djúpál vestan megin, 110 m. Innan við Hörgárósa dregur rólega úr dýpinu og er dýpið út af Skjaldarvík þó ennþá 65 m og við Krossanes 55 m, en úr því dregur hratt úr dýpinu. Hafrannsóknastofnun hefur metið heildar rúmmál Eyjafjarðar 29 km3 (sunnan 66°10 N).

Til samanburðar má nefna að flatarmál Arnarfjarðar á Vestfjörðum er áætlað 343 km2 og rúmmál hans um 19 km3. Hafrannsóknastofnun hefur metið burðarþol Arnarfjarðar til fiskeldis 30.000 tonn, þó er fiskeldi aðeins heimilt í hluta af firðinum.

Haffræði fjarðarins

Haffræði Eyjafjarðar er þekkt með nokkurri vissu. Hafstraumar eru almennt meiri en mælist í mörgum öðrum fjörðum hérlendis og sértaklega eftir því sem innar dregur. Innan við Hjalteyri og allt inn undir Svalbarðseyri er meðalstraumur um 7-9 cm/sek á 15 m dýpi og hámarks sjávarfallastraumar á bilinu 30-70 cm/sek. Straumstefnan er almennt í suður að vestanverðu og í norður austanmegin. Flókið getur verið að metavatnsskiptin í firðinum, einnig  kallað endurnýjunartími sjávar. Út frá meðalstraumi við Gjögur í fjarðarminni má áætla að vatnsskiptin séu nálægt einni viku, en allt að fjórar vikur metið eingöngu út frá sjávarföllum. Endurnýjunartímann má áætla þarna mitt á milli. Innan við Hjalteyri er áætlað að vatnsskiptin séu 13-17 dagar, reiknað út frá straummælingum og sjávarföllum. Súrefnismælingar sýna að Eyjafjörður er ekki dæmigerður þröskuldsfjörður þrátt fyrir 40 m dýpisþröskuld utan við Hjalteyri. Vegna mikilla hafstrauma myndast ekki sterk lagskipting í djúpálnum eins og oft gerist í fjörðum með meiri dýpisþröskulda og hægari strauma. Gott dæmi um slíkan fjörð er Arnarfjörður, þar sem endurnýjun sjávar stöðvast tímabundið í djúpsjó vegna lagskiptingar, sem leiðir til að súrefnismettun lækkar verulega síðsumars og á haustin. Slíkt er ekki tilfellið í Eyjafirði.

Næringarefnaástand

Styrkur nitrats (NO3) og fosfats (PO4) eru gjarnan notaðar sem mælikvarði á „mengunarástand“ í vatni og sjó. Stuðst er þá við vetrargildi, því yfir dimmasta tíma ársins er enginn þörungavöxtur og öll næringarefni eru þá uppleyst. Sjósýnataka fór fram að vetri til árin 1993, 2017 og 2018. Prufur voru teknar á 12 til 17 stöðvum frá Oddeyri að Gjögri. Niðurstöður sýna mun minni breytileika en búast mátti við miðað við stærð fjarðarins. Nitrat er að jafnaði aðeins um 1% hærra á svæðinu innan við Hörgárósa í samanburði við útsvæði fjarðarins, sunnan og norðan við Hrísey. Og fosfat er um 3% hærra á innsvæðinu í samanburði við útsvæðið (sjá kort). Almennt er sjór fyrir Norðurlandi næringarsnauðari en sunnan og vestan við landið. Vetrargildi niturs og fosfórs við Suðurströndina og í Faxaflóa er að jafnaði 13,3 µmól/líter (NO3) og 0,90 µmól/líter (PO4). Þó innihald næringarefna sé hærra í Eyjafirði en úti fyrir Norðurlandi benda þessi gögn til að næringarefnaástand Eyjafjarðar sé harla gott þrátt fyrir afrennsli næringarefna frá landbúnaðarsvæðum og allmikla íbúðarbyggð, ásamt afrennsli frá fiskvinnslu og öðrum iðnaði.

Af þessum niðurstöðum má ætla að „náttúrulegt“ innihald af nitur (köfnunarefni) í Eyjafirði sé um 5.300 tonn og sambærileg tala fyrir fosfór er um 800 tonn. Sem dæmi, þá mun 20.000 tonna laxeldi auka uppleyst nitur í firðinum um 12% (650 tonn) og fósfór um 7% (60 tonn) á ársgrundvelli (til viðbótar kemur fast botnfall, en magn þess ræðst af eldistækni; opnar eða lokaðar eldiskvíar). Þessi aukning frá fiskeldinu dreifist yfir alla daga ársins. Framburður næringarefna í vorleysingum frá stórum ám sem falla í Eyjafjörð yrði mun meiri en hámarks dagleg úrskolun næringarefna frá fiskeldi. Áætla má að meðalrennsli stærri vatnsfalla sem renna í innanverðan Eyjafjörð; Eyjafjarðará, Glerá, Hörgá og Fnjóská sé nálægt 100 m3/sek. Í vorleysingum er þetta rennsli margfalt. Efnamælingar árvatns sýna innihald sem er nálægt 5 µmól/L nitur og 0,5 µmól/L fosfór. Ætla má að í innanverðan Eyjafjörð berist því árlega að lágmarki 220 tonn nitur og 50 tonn fosfór með árvatni. Miklir hafstaumar og ör sjóskipti benda einnig til þess að geta Eyjafjarðar til að takast á við miklar náttúrlegar sveiflur í næringarefnákomu séu miklar. Ennþá er óljóst hvert er burðarþol fjarðarins fyrir fiskeldi, en margt bendir til að það sé talsvert.

Staðsetning eldissvæða 

Staðsetning eldissvæða skiptir máli og þarf þar að taka tillit til fjölmargra sjónarmiða. Út frá sjálfbærnisjónarmiðum geta hafstraumar og straumstefnur haft úrslitaáhrif. Við val á eldistækni skiptir sjávardýpi og öldufar hinsvegar meginmáli. Svo þarf að taka mið af dýralífi, öðrum sjávarnytjum og siglingarleiðum. Einnig má nefna fagurfræði og jafnvel neikvæða ímynd fiskeldis, sem skiptir sumt fólk mestu máli. Spyrja má, hvort  einhver möguleiki sé á að samræma þessi sjónarmið í Eyjafirði ? Þeir sem tala um sjónmengun nefna gjarnan að fiskeldi þurfi að fara á land. Á landi þarf sambærileg framleiðslueining stærra flatarmál en á sjó og ljósmengun þá meiri af aragrúa hringlaga landkerjum. Hvað með að sleppa þessu bara alveg? Það er önnur og lengri umræða. Ljós eru notuð neðansjávar í sjókvíum. Yfirborðsljós eru í lágmarki, nema á bátum sem þjónusta eldiskvíar.

Mikilvægt er að hefja vinnu við strandsvæðaskipulag þannig að öll sjónarmið fái hljómgrunn. Út frá sjálfbærnisjónarmiðum er e.t.v. æskilegast að eldiskvíar í Eyjafirði séu staðsettar austanvert í firðinum. Þannig munu hafstraumar í ríkari mæli færa uppleyst næringarefnin út úr firðinum. Austanvert er einnig minna þéttbýli og færri yrðu þar vitni að ljótleikanum! Miðað við stærð fjarðarins væri sérkennilegt ef ekki fyndust svæði sem flestir yrðu sáttir við fyrir sjókvíar. Aðeins þarf um 1% af flatarmáli fjarðarins til að framleiðslan 20 þús. tonn, svo dæmi sé tekið. Jafnvel má finna rúmgóð og hentug svæði í innanverðum Eyjafirði án þess að það trufli á nokkurn hátt siglingaleiðir um fjörðinn.

Heyrst hefur að sjókvíaeldi muni koma í veg fyrir að hægt yrði að stunda hvalaskoðun í Eyjafirði. Á hverju slík skoðun  byggir er erfitt að ráða í. Sumir hafa einfaldlega neikvæða afstöðu til laxeldis. Í Noregi og Skotlandi er blómleg ferðaþjónusta, sem byggir á hvalaskoðun þrátt fyrir öfluga fiskeldisstarfsemi þar við strendur. Í Noregi eru sjókvíar staðsettar á yfir 800 aðskyldum svæðum og mjög oft nærri farleiðum stærri hvalategunda. Afar fáheyrt er að þessi stóru sjávarspendýr syndi inn í kvíaþyrpingar eða að einhver vandi fylgi þessu sambýli.

Smábátasjómenn hafa lýst sig andvíga sjókvíaeldi í Eyjafirði. Fullyrt er að laxeldi loki fyrir þekkt veiðisvæði og fæli fisk í burtu. Staðreyndin er reyndar sú að sjókvíaeldi dregur að sér botnfiska og eykur veiði í nágrenni við kvíaþyrpingar. Það er vegna þess að botnfall eykur æti og fjölgar botndýrum á jaðarsvæðum, s.s. smákrabba, orma og slöngustjörnur. Sjómenn í Patreksfirði og Tálknafirði eru a.m.k. mjög sáttir með laxeldið þar. Veiði þorsks og ýsu kemur og fer í takt við starfsemi eldisfyrirtækja. Á hvíldarári dettur veiðin niður. Fóðurrestar hafa ekki neikvæð áhrif á heilnæmi sjávarfangs, enda nota eldisfyrirtæki eingöngu fóður sem inniheldur náttúruleg lífræn hráefni (engin kemísk tilbúin efni).

Laxalúsin 

Það er hins vegar full ástæða til að hafa áhyggur af laxalús – ef laxeldi verður leyft í opnum eldiskvíum. Ekki endilega vegna þess að lúsin hafi mikil áhrif á villta laxfiska eða bleikju, heldur vegna þess að lúsin skaðar eldislaxinn. Í köldum vetrarsjó er þol laxsins fyrir lúsasmiti afar lítið. Lúsavörnum fylgir gríðarlegur kostnaður og framleiðslutjón. Eina sjálfbæra og raunhæfa vörnin er að stunda reglubundna hvíld á öllum Eyjafirði eða stunda laxeldi í lokuðum sjókvíum. Í lokuðum eldiskvíum er mögulegt að fyrirbyggja alfarið að laxalús skapi  vanda. Stjórnvöld eiga einfaldlega að setja kröfur og skilyrði um umhverfisvænar eldisaðferðir.

Í andmælum um sjókvíaeldi í Eyjafirði hefur verið minnst á að lúsin muni stórskaða bleikjustofna jafnvel útrýma þeim. Það er afar ósennilegt að þetta gangi eftir, jafnvel þó laxeldið fjölgi lúsalirfum umtalsvert. Dvalartími bleikju í sjó er aðeins 6 – 10 vikur, frá apríl/maí til júní/júlí. Á þeim tíma nær lúsin ekki er að fullþroskast eða verða skaðleg bleikju. Þess utan er bleikjan yfirleitt nærri ósasvæðum þar sem sjórinn er ekki fullsaltur og lúsasmit mun minna. Reynslan erlendis frá, þar sem sjávarhiti er meiri og þroskahraði lúsa því meiri, sýnir að bæði bleikja og sjóbirtingur „hreinsa“ sig af laxalús með því að synda upp í árósana. Sjóbirtingur dvelur lengur en bleikja í sjó og hefur því mun meira náttúrulegt lúsasmit. Sjóbirtingur er algengur Eyjafirði og því er fyrirfram ljóst að umfangsmikið hvíldarlaust laxeldi í opnum eldiskvíum mun margfalda lúsasmit sem ógnar rekstri eldisfyrirtækja sem enn síður getur haft neikvæð áhrif á lítinn og viðkvæman laxastofn í Fnjóská. Það er þó svo heppilegt hérlendis að vegna sjávarkulda hafa laxaseiðin venjulega yfirgefið árnar og strandsvæðin þegar nýsmit lúsalirfa hefst á sumrin.

Samfélagsleg áhrif

Að lágmarki þarf 4-5 ársverk til að framleiða 1.000 tonn af laxi og annað eins við slátrun. Til viðbótar kemur bein aðkeypt stoðþjónusta; s.s. kafarar, iðnaðarmann, flutningar og m.fl. Fullvinnsla afurða kallar svo á enn meiri mannskap. Fiskeldi þarf á að halda vel menntuðu starfsfólki af báðum kynjum. Eyjafjörður er vaxandi matvælaframleiðsusvæði og ekki verður annað séð en laxeldi geti verið mikilvægur þáttur í þeirri uppbyggingu. Háskólasamfélag á Akureyri er mjög vaxandi og gæti orðið gagnkvæmur styrkur þróunarstafi í framsæknu umhverfisvænu fiskeldi. Mörg verkefni fyrir nemendur og viðfangsefni til stærri rannsókna – í túnfætinum. Þar gæti Háskólinn á Akureyri tekið ákveðna forustu.

Lengi hafa verið uppi áætlanir um uppbyggingu á vöruhöfn á Dysnesi og færa þangað alla gámaumferð frá Oddeyri. Hugmyndir er einnig um uppbyggingu á stóru lífmassaveri í Eyjafirði fyrir móttöku á lífrænum úrgangi af Norður og Austurlandi. Staðsetning á Dysnesi gæti verið hentug fyrir slíka starfsemi. Jafnvel fyrir Slippinn líka. Uppbygging laxeldis gæti hjálpað til að undirbyggja fjárhagslegar forsendur fyrir svo mikilli framkvæmd. Þar mætti staðsetja þjónustuhöfn fyrir laxeldið, laxaslátrurhús og jafnvel laxavinnslu. Uppsafnað botnfall frá lokuðum sjókvíum mætti nýta til metanframleiðslu í lífmassaveri. Úrgang frá laxeldinu mætti þannig nýta sem eldsneyti á þjónustubáta eldisins.

Umhverfisvænt laxeldi gæti hjálpað til við að styrkja ímynd svæðissins til hagsbóta fyrir bæði ferðþjónustu og markaðssetningu matvæla frá matarkistunni Eyjafirði. Gríðarleg framþróun hefur átt sér stað í laxeldi eins og í öllum öðrum matvælaiðnaði. Saga fiskeldis er þó víða sorgarsaga mistaka og þekkingarleysis. En menn hafa sem betur fer ekki gefist upp á að læra og bæta sig. Í dag er laxeldi ein umhverfisvænasta matvælaframleiðsla sem fyrirfinnst. Fyrirliggjandi gögn benda til að hvorki líffræðileg eða vistkerfisleg rök mæli gegn laxeldi í Eyjafirði. Málið snýst fremur um útfærslu, skipulaga og framtíðarýn fyrir Eyjafjarðarsvæðið.  Vona bara að Eyfirðingar skoði málið vel og kasti ekki frá sér tækifæri til að styrkja sjálfbæra auðlindanýtingu svæðisins og tugmilljarða verðmætasköpun? Ef það verður niðurstaðan þá er það af því bara !

 

Jón Örn Pálsson,

sjávarútvegsfræðingur

Sjálfstætt starfandi ráðgjafi

DEILA