Dellusafnið hefur opnað á Ísafirði í húsnæði við Aðalstræti 20. Verður opið alla daga vikunnar frá 13 til 17 fram til loka ágúst.
Dellusafnið er vettvangur fyrir hvers kyns safnara til að sýna ýmis konar muni sem það hefur sankað að sér. Þar hefur m.a. mátt sjá lögregluhúfur úr ýmsum áttum, eldspýtustokka og sígarettupakka frá stríðsárunum, teskeiðar úr öllum heimshornum o.fl.
Dellusafnið var upphaflega á Flateyri og var opnað var opnað árið 2011. Safnstjóri og upphaflegur eigandi safnsins var Jón Svanberg Hjartarson frá Flateyri. Opnaði hann það í þeim tilgangi að koma fyrir sínu eigin lögregluminjasafni og hvetja fólk til þess að gera slíkt hið sama við sín einkasöfn. Einkasöfnin koma víða vegar að af landinu.
Ýmis áhugaverð einkasöfn má finna á Dellusafninu. Þrjú safnanna koma frá sama heimilinu á Flateyri. Hjónin Nilma og Valdemar eiga hvort sitt safnið á Dellusafninu, en hún á smáflöskusafn og hann vinnuvélamódelasafn. Dóttir þeirra, Hrefna, á einnig einkasafn á Dellusafninu, en það er stórt pennasafn.