Bolungavík: skuldir hækkuðu í fyrra

Þjóðhátíðarhöldin fóru fram við Félagsheimilið í Bolungavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Skuldahlutfall Bolungavíkurkaupstaðar hækkaði árið 2019 um 12% af tekjum á árinu frá sem var árið áður. Hlutfallið var 93% fyrir A hluta og hækkaði úr 81%. Sé tekið skuldahlutfall af allri starfsemi kaupstaðarins er hlutfallið 111% en var 100% árið áður.

Skv. 2. mgr. 64. gr. sveitastjórnarlaga á þetta hlutfall ekki að vera hærra en 150%.

Heildartekjur urðu nærri 1300 milljónir króna og tæplega 18 milljónir króna afgangur sem er í samræmi við fjárhagsáætlunina.

Skatttekjur voru um 630 milljónir króna og framlag jöfnunarsjóðs 300 milljónir króna. Þjónustutekjur voru 270 m.kr. og endurgreiðslur 52 m.kr.

Stærsti útgjaldaliðurinn voru laun og tengd gjöld eða 680 m.kr.

Heildarskuldir voru um áramótin 2 milljarðar króna. Þar voru skuldir við Lánasjóð sveitarfélaga langfyrirferðamestar eða nærri 1,3 milljarðar króna. Á móti skuldunum standa eignir upp 2,3 milljarðar króna. Veltufjármunir eru 200 milljónir króna og skammtímaskuldir eru 357 milljónir króna.  Næsta árs afborganir langtímaskulda er 117 milljónir króna.

Félagsheimili Bolungavíkur 34 m.kr.

Framlag bæjarsjóðs til Félagsheimilisins var 34 m.kr á árinu og til félagslegra íbúða var 16 m.kr. framlag. Hafnarsjóður, vatnsveita og fráveita stóðu undir sér á árinu þar sem tekjur voru hærri en útgjöld.

 

DEILA