Bæjarráð Bolungarvíkur samþykkti í gær ályktun vegna lokunar svæðisskrifstofu Rauða krossins.
Í ályktuninni segir að bæjarráðið „harmar þá ákvörðun RKÍ að loka starfsstöð sinni á svæðinu og mótmælir því harðlega. Mikilvægi starfstöðvar á svæðinu hefur margsannað gildi sitt í þeim áföllum sem svæðið hefur orðið fyrir í gegnum tíðina í tengslum við náttúruhamfarir. Starfstöð RKÍ hafði lykilhlutverk í viðbrögðum samfélagsins vegna Covid-19 faraldursins í vetur. Án þeirra aðkomu hefði samfélagið ekki getað komist í gegnum þetta ástand eins vel og kostur var.“
Þá segir í samþykktinni:
„Þessi ákvörðun um að loka starfsstöð RKÍ á svæðinu er ekki í neinu samræmi við nýsamþykkta stefnu samtakanna þar sem eitt af yfirlýstum markmiðum er að færa starf RKÍ enn nær heimabyggð. Þar að auki er ákvörðunin ógagnsæ og órökstudd og ekkert samráð eða samtal átti sér stað við aðila í heimabyggð í aðdraganda uppsagnanna.
Bæjarráð Bolungarvíkur skorar á yfirstjórn RKÍ að draga þessi áform til baka og frekar verði stefnt að því að efla starfsstöðvarnar víðsvegar um landið í framtíðinni.“