Act alone sautjánda árið í röð

Elsta leiklistarhátíð landsins, Act alone, verður haldin 6. – 8. ágúst í einleikjaþorpinu Suðureyri. Er þetta 17 árið í röð sem hátíðin er haldin. Viðburðirnir á Actinu eru einum fleiri en árin eða alls 18 talsins. Að vanda er fjölbreytileikinn í aðalhlutverki einleikir, óperur, dans, tónlist og fleira einleikið. Það er margt einstakt við Actið einsog það að það er ókeypis á hátíðina. Já, frítt á hvern einasta viðburð á Actinu það er nú bara einleikið.

Meðal viðburða á Actinu má nefna uppistand með Pétri Jóhanni, tónleika með Beetween Mountains, ljóðadagskrá með Arnari Jónssyni, danssýningu Katrínar Gunnarsdóttur og tónleika með Auði en þetta er í fyrsta sinn sem hann heldur tónleika á Vestfjörðum. Að vanda er boðið uppá vandaða dagskrá fyrir æskuna töfranámskeið með Einari Mikael, sögustund með Sirrý um tröllastrákinn Vaka og tónleika með Aðalsteini Ásberg.

Dagskrá Act alone er að finna á heimasíðu hátíðarinnar www.actalone.net

Rétt er að benda á að það er einnig hægt að fara ókeypis á Actið með langferðabifreið hátiðarinnar https://actalone.net/okeypis_far_a_act_alone/

Elfar Logi Hannesson, er aðalhvatamaðurinn að hátíðinni og hann enn fullur eldmóðs þrátt fyrir að nærri tuttugu ár eru liðin frá fyrstu hátíð. Hann minnir á kórónaveirufaraldurinn og gefur ráð til að bregðast við:  „Stöndum saman á Actinu samt ekki of þétt og berum virðingu fyrir hvort öðru.“

DEILA