Vigdís Jakobsdóttir áfram listrænn stjórnandi Listahátíðar

Ísfirðingurinn Vigdís Jakobsdóttir var í vikunni endurráðin sem listrænn stjórnandi Listahátíðarinnar í Reykjavík  til næstu fjögurra ára eða til 30. september 2024.

Í tilkynningu frá Listahátíðinni segir að Vigdís hafi stýrt hátíðinni í fjögur ár og reynst afar farsæll, öflugur og hugmyndaríkur stjórnandi. Vigdís hafi leitt mikilvæga stefnumörkun auk þess að stjórna fjölbreyttri starfsemi Listahátíðar í samstarfi við mikinn fjölda stofnana og listamanna hér heima og erlendis undanfarin ár.

Listahátíð í Reykjavík var haldin í fyrsta sinn vorið 1970 en á þessu 50 ára afmælisári 2020 verður hátíðin með afar frábrugðnu sniði en fyrirhugað var vegna kórónuveirunnar. Það er mat stjórnar að Vigdís hafi sýnt sérstaka útsjónarsemi og hugmyndaauðgi í ár við útfærslu á starfseminni á þessum einstöku tímum.

 

,,Mér þykir afar vænt um þann heiður sem stjórnin sýnir mér með endurráðningunni og ég hlakka til að takast á við þau krefjandi og skemmtilegu verkefni sem eru framundan. Á fimmtíu ára afmæli Listahátíðar tökumst við á við fordæmalausar aðstæður í sögu hátíðarinnar og munum teygja úr afmælishátíðinni yfir heilt ár. Það kallar á endurhugsun og endurskipulagningu en opnar líka nýja möguleika í starfseminni sem verður gaman að fá tækifæri til að fylgja eftir.“  segir Vigdís Jakobsdóttir.

Listahátíð í Reykjavík er sjálfseignarstofnun og eru Mennta- og menningarmálaráðuneyti og Reykjavíkurborg stofnaðilar. Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra gegnir formennsku í fulltrúaráði hátíðarinnar í ár og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri er varaformaður.

 

DEILA