Upplýst umræða

Róbert Guðfinnsson. Mynd: siglo.is

Eitt af umdeildu málunum þessa dagana er tilvist fiskeldis á Íslandi. Laxeldi er ung atvinnugrein á Íslandi sem gæti haft mikla þýðingu fyrir efnahag landsins í náinni framtíð ef rétt verður á málunum haldið.

Á árinu 2019 var framleiðsla á laxfiskum á Íslandi um 28 þúsund tonn. Það þykir ekki stór tala í heimi laxeldis. Þannig eru frændur okkar Færeyingar farnir að framleiða um 100 þúsund tonn og Norðmenn framleiða um 1,3 milljónir tonna. Stefna Norðmanna er að
framleiða fimm milljónir tonna af laxi fyrir árið 2050. Ef ekki verður hröð breyting á mun Ísland sitja eftir í samkeppninni um hylli neytenda á markaði fyrir laxaafurðir.

Löggjafinn hefur sett skýrar reglur um þá ferla sem þurfa að fara fram áður en sótt er um leyfi til laxeldis. Þannig þarf Hafrannsóknastofnun að gera áhættumat og burðarþolsmat til að hægt sé að meta hvort raunhæft sé að leyfa laxeldi á viðkomandi svæði.
Til að þroskuð umræða geti farið fram þarf þessari vinnu að vera lokið.
Árið 2017 lýsti þáverandi sjávarútvegsráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, því yfir að vinna við áhættumat og burðarþolsmat fyrir Eyjafjörð væri á lokametrunum.
Áhugasamir aðilar hófu undirbúning að því að sækja um leyfi fyrir laxeldi í Eyjafirði ef
slík leyfi yrðu gefin út. Eitt af þessum fyrirtækjum lýsti yfir áhuga á að vera með starfsstöð í Ólafsfirði.

Nú, um þremur árum síðar, hefur ekkert bólað á áhættumati eða burðarþolsmati fyrir Eyjafjörð. Leiða má að því líkur að hvort tveggja matið sé að mestu tilbúið hjá Hafrannsóknastofnun. Það verður hins vegar ekki birt fyrr en Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra kallar eftir því. Það hyggst ráðherrann ekki gera.
Á sama tíma hvetur ráðherrann viðkomandi sveitarfélög til að taka afstöðu til laxeldis í Eyjafirði án þess að sveitarstjórnarmenn hafi aðgang að undirstöðuupplýsingum.
Við þær aðstæður getur aldrei orðið upplýst umræða um málefnið.

Það telst varla eðlileg stjórnsýsla að ráðherra geti haldið áhættumati og burðarþolsmati í gíslingu til að hefta upplýsta umræðu. Það eru vinnubrögð sem tilheyra þjóðfélögum sem við viljum helst ekki að Ísland sé borið saman við. Nú þegar útlit er fyrir að halli á
ríkissjóði Íslands verði tæpir fimm hundruð milljarðar á næstu tveimur árum þarf að nýta öll skynsamleg tækifæri til að afla nýrra gjaldeyristekna. Laxeldi gæti átt
stóran þátt í að rétta af efnahaginn.

Við þessar aðstæður gengur það ekki upp að ráðherra með einhverja sérhagsmuni haldi aftur af eðlilegri þróun. Það er því brýnt að ríkisstjórnin grípi fljótt inn í og
tryggi eðlileg vinnubrögð hvað varðar málefni laxeldis.

Róbert Guðfinnsson

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.

DEILA