Tálknafjörður: ráðherra hafnaði afnámi vinnsluskyldu byggðakvóta

Sjávarútvegsráðherra hafnaði samþykkt sveitarstjórnar Tálknafjarðarhrepps um afnám vinnsluskyldu á byggðakvóta. Verður fiskiskipum skylt að landa byggðakvóta til vinnslu innan byggðarlaga í Vestur Barðarstrandarsýslu. Landa skal í Tálknafjarðarhöfn.

Í raun skýst málið um fiskvinnslu Odda á Patreksfirði þar sem það er eina fiskvinnslan á svæðinu. Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps hafði samþykkt í janúar að heimilt yrði að telja afla landaðan til uppboðs á fiskmarkaði til byggðakvóta. Því hafnar ráðherra og ákvað hann að hafa áfram vinnsluskyldu á byggðakvótanum.

Sveitarstjórnin samþykkti á fundi í fyrradag harðorða ályktun þar sem ákvörðun ráðherra er mótmælt og þess krafist að ráðherra gefi skýringar á því að dæmi eru um sveitarfélög þar sem hann hefur fallist á að undanskilja vinnsluskylduna. Segir í ályktuninni að sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélagsins hafi verið virtur að vettugi. Þá var sveitarstjóra veitt umboð til þess að skjóta málinu til Umboðsmanns Alþingis.

 

„Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps mótmælir harðlega ákvörðun sjávarútvegsráðherra
varðandi staðfestingu á reglum sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa
fiskveiðiárið 2019/2020. Ákvörðun hans gengur þvert gegn einróma ákvörðun
sveitarstjórnar Tálknafjarðarhrepps þar sem ákveðið var að falla frá vinnsluskyldu
byggðakvóta sveitarfélagsins til að gera fleiri útgerðum kleift að nýta sér
byggðakvótann til að efla atvinnu í sveitarfélaginu. Einnig vekur furðu að mörg önnur
sveitarfélög skuli ekki þurfa að uppfylla vinnsluskyldu byggðakvóta eins og útgerðir í
Tálknafirði þurfa að gera og geta þannig úthlutað sínum byggðakvóta án þess að hafa
samning við vinnslur í sínum nágrannabyggðalögum eins og Tálknfirðingum er skylt
að gera.
Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps krefst þess að ráðherra gefi skýringar á þessari
mismunun sveitarfélaga sem að okkar dómi brýtur í bága við jafnræðisreglur
stjórnsýslunnar. Sveitarstjórnin telur jafnframt að með þessari ákvörðun ráðherra hafi
sjálfsákvörðunarréttur Tálknafjarðarhrepps verið virtur að vettugi og einróma
ákvörðun sveitarstjórnar hunsuð.
Sveitarstjóri hefur umboð til að skjóta málinu til umboðsmanns Alþingis berist ekki
rökstudd svör frá ráðuneytinu innan tilskilins frests.“

DEILA