Sýningaröðin Ferocious Glitter II : Eyborg Guðmundsdóttir 11.6 – 24.6 2020

FEROCIOUS GLITTER II
23.5 – 22.8 2020

Einar Þorsteinn – 23.5 – 7.6
Eyborg Guðmundsdóttir – 11.6 – 24.6
Hreinn Friðfinnsson/Sólon Guðmundsson – 27.6 – 12.7
Gabríela Friðriksdóttir 18.7 – 2.8
Donald Judd 8.8 – 22.8

Ferocious Glitter II er seinni hlutinn í röð tíu tveggja vikna sýninga í Gallerí Úthverfu / Outvert Art Space á Ísafirði. Fyrri hluti seríunnar fór fram sumarið 2019 og þá voru sýnd verk Peter Schmidt, Svövu Skúladóttur, Ingólfs Arnarssonar, Karin Sander og Rögnu Róbertsdóttur. Sýningarnar tengjast allar Ísafirði og menningar- og listasögu bæjarins. Sýningarstjóri er Gavin Morrison.

 

Hraðar skiptingar sýninganna eru að hluta til svar við árstíðabundnum sviftingum á norlægum slóðum þar sem sumarkoman með vaxandi dagsbirtu glæðir íbúana auknum krafti og sköpunargleði. Þessi orka er endurspegluð í örum skiptingum í bland við sterkan fókus sýningarrýmisins og miðar að því að skapa kraftmiklar aðstæður sem auðvelda skoðun sagna og samtímaverka í návígi en með víðtækari vitund um tengsl bæjarins við sköpunina sem hann hefur alið.

 

Á þessari sjöundu sýningu í Ferocious Glitter seríunni – og annarri í seríu þessa árs – eru sýnd málverk, prent og verk úr plexígleri eftir Eyborgu Guðmundsdóttur. Eyborg var einstök í islensku listalífi. Verk hennar eru sprottin úr alþjóðlegum listastefnum á borð við geometríska abstraktlist og Op-Art. Ferill hennar var stuttur, aðeins sextán ár, en á þeim tíma þróaði hún mjög persónulegt myndmál með leikandi einföldum formum.

 

Eyborg Gudmundsdottir (1924-1977) fæddist í Reykjavík en flutist stuttu síðar með móður sinni til Ísafjarðar. Hún stundaði listnám í París á árunum 1959-63, hún lagði fyrst stund á akademískt nám en líkaði það illa og valdi í staðinn að skipuleggja nám sitt sjálf. Hún vann meðal annars undir handleiðslu hins þekkta op-listamanns Victors Vasarely. Verk hennar voru sýnd víðsvegar um Evrópu með hópi listamanna sem hafði mikil áhrif á þeim tíma; Mesure-hópnum. Fyrsta einkasýning hennar var í Bogasal Þjóðminjasafnsins 1965. Hún lést árið 1977, fimmtíu og tveggja ára að aldri.

Verkin sem fengin hafa verið að láni fyrir sýninguna gefa nokkra yfirsýn yfir listferil Eyborgar. Einnig eru til sýnis ljósmyndir og sendibréf úr fórum ættingja hennar á Ísafirði sem gefa tilfinningu fyrir uppvexti hennar á Vestfjörðum.

 

Verkin á sýningunni eru fengin að láni hjá Listasafni Borgarness, Listasafni Reykjavíkur, Listasafni Háskóla Íslands og hjá frænku listakonunnar Guðrúnu Friðriksdóttur.

DEILA