Indriði Aðalsteinsson, bóndi á Skjaldfönn ritar í gærkvöldi fréttabréf innan úr Skjaldfannardal:
Mikil gæða og gróskutíð hefur verið hér, allt frá sauðburðarbyrjun til dagsins í dag,en hér skreið hitinn yfir 20 gráður og búið að rigna mikið og vel og kalsvæðin á túnunum eru farinn að minna á hendingar Tómasar skálds „að svo er mikill vorsins undrakraftur,að jafnvel gamlir símastaurar syngja í sólskininu og verða grænir aftur.“
Í gær ók ég fyrstu lambánum inn í Kaldalón og tók eftir þeirri umhugsunarverðu breytingu frá allmörgum undanförnum vorum á svipuðum tíma, að enginn merki um erlenda túrhesta voru þar nú að sjá. Íslendingar eiga nú þann sjaldgæfa kost í sumar, að geta ferðast um landið sitt, án þess að verða troðnir undir eða vera sífelt að skrika fæti í túrhestasaur.
Látið það happ ekki úr hendi sleppa, ekki víst hvenær það býðst næst. Vegurinn út á Snæfjallaströnd er enn teftur af 3 sköflum í og innan við Lónseyrarleiti , gætu verið 3-4 metrar á dýpt og orðið tímabært að blása þeim burt svo heimafólk á Ströndinni geti farið að komast í sína sumarsælureiti.
Hér eru allar ær bornar og komnar út í gróandan eftir einstaklega farsælan og vanhaldalítin sauðburð. Þakkir til allra sem þar lögðu hönd að.