Súðavík: 41 m.kr. tekjulækkun er mikil af 250 m.kr.

Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri í Súðaví segir að fjárhagsvinna fyrir 2021 verði skoðuð með það í huga að mæta þeirri skerðingu á framlögum sem er fyrirsjáanleg. Skerðingin bætist við það að fyrir árið 2020 var gert ráð fyrir að útkoma ársins yrði neikvæð um hátt 40 mkr., sem er  vegna uppsafnaðra framkvæmda sem eru nauðsynlegar s.s. viðhald skóla og annarra fasteigna sveitarfélagsins.

Samkvæmt ákvörðun Jöfnunarsjóðsins lækka jöfnunarframlög til Súðavíkurhrepps vegna fasteignaskatts um 5 m.kr. og útgjaldajöfnunarframlög lækka um 36 m.kr.

Gagnrýnir niðurskurð í kjölfar erfiðs veturs og covid 19

„Ég tel það annars mjög gagnrýnivert að birta þessa áætlun sjóðsins eftir þennan vetur og byrjun ársins með samdrætti vegna ástands og veðurfars sem leiðir sjálfkrafa til samdráttar í tekjum sveitarfélaga. Sem um leið hefur í för með sér frekari fjárútlát svo sem vegna snjómoksturs og öðru tengt erfiðu veðurfari. Hér hefur atvinnustarfsemi orðið fyrir tjóni vegna tíðra lokana á Súðavíkurhlíð í vetur, Covid-19 sett strik í reikning margra á alla þá vegu sem unnt er og hér hefði verið tilefni til þess að draga ekki úr framlögum sjóðsins miðað við áætlanir frá 2019.

Sveitarfélög hvött til útgjalda

Þrátt fyrir að Súðavíkurhreppur standi að mörgu leyti vel fjárhagslega miðað við sveitarfélög almennt hefur samdráttur upp á 40 mkr. áhrif þegar velta er ekki yfir 250 mkr. á ársgrundvelli. Það segir sig sjálft. Á sama tíma eru sveitarfélög landsins hvött til þess að bæta í og leggjast í framkvæmdir og fjárútlát til þess að vega upp á móti áhrifum samdráttar og atvinnuleysis. Þetta bara leggst því mun harðar á sveitarfélögin, sum þeirra að minnsta kosti – önnur koma til með að þiggja frekar en veita.“

 

DEILA