Strandabyggð : 47 m.kr. tap 2019

Ársreikningar Strandabyggðar fyrir 2019 liggja fyrir. Tap varð af rekstri sveitarfélagsins upp á 47 milljónir króna. Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt samanteknum ársreikningi A og B hluta var neikvæð um 46,7 millj.kr. en í A hluta var rekstrarniðurstaðan neikvæð um 38,8 millj. kr.

Rekstrartekjur A hluta urðu 23 milljónum króna lægri en fjárhagsáætlun 2019 gerði ráð fyrir. Tekjurnar urðu 587 m.kr. en höfðu verið áætlaðar 610 m.kr.  Það voru lægri tekjur úr Jöfnunarsjóði sem skýra frávikið að mestu, en þar munaði 21 m.kr.

 

Resktrargjöldin fóru 37 milljónum króna fram úr áætlun og urðu 600 m.kr.  Launakostnaður varð 18 m.kr. hærri en áætlun gerði ráð fyrir og annar kostnaður varð sömuleiðis 18 m.kr. umfram áætlun.

Rekstrartapið kemur fram í lakari stöðu í efnahag sveitarfélagsins. Langtímaskuldir A og B hluta jukust um 19 m.kr. og skammtímaskuldir hækkuðu um 27 milljónir króna. Samtals hækkuðu skuldirnar um 46 milljónir króna  og námu 709 milljónum króna í lok ársins 2019.

Veltufjármunir  lækkuðu milli ára  úr 80 m.kr. i 53 m.kr.  Veltufjárhlutfallið, þ.e. velufjármunir/skammtímaskuldir er aðeins 0,3 sem endurspeglar erfiða greiðslustöðu sveitarfélagsins.

Fjárfest á árinu 2019 var fyrir 60 m.kr. Til íþróttamiðstöðvar fóru 20 m.kr. og 11 m.kr. í gatnagerðarframkvæmdir. Hafnarframkvæmdir ársins kostuðu 17 m.kr og þar af var hlutur ríkissjóðs 14 m.kr. Til lagningu ljósleiðara var varið 11,5 m.kr. og styrkir fengust fyrir 6,5 m.kr. þannig að hlutur sveitarfélagsins varð 5 m.kr.

Þungar horfur 2020

Horfur fyrir árið eru þungar og kemur þar einkum til covid 19 faraldurinn. Tilkynnt hefur verið um niðurskurð á framlögum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og munu framlög til Strandabyggðar lækka um 36 milljónir króna. Brugðist hefur verið við með niðurskurði framkvæmda úr 59 m.kr. í 23 m.kr.

DEILA