Skúrin: samfélagsmiðstöð á Flateyri

Skúrin er sjálfssprottið samstarfsverkefni einstaklinga og fyrirtækja á Flateyri í samstarfi við Ísafjarðarbæ um rekstur samfélagsmiðstöðvar á Flateyri. Skúrin mun hýsa höfuðstöðvar Lýðskólans, skrifstofu Ísafjarðarbæjar á staðnum, skrifstofu fyrir hverfisráð Önundarfjarðar, skrifstofu verkefnastjóra ríkisstjórnarinnar um málefni Flateyrar og aðstöðu framkvæmdastjóra Lánasjóðs sveitarfélaga ásamt aðstöðu fyrir fjölmörg fyrirtæki og sjálfstætt starfandi einstaklinga sem lifa og starfa á Flateyri eða dvelja þar reglulega. Jafnframt er boðið upp á aðstöðu fyrir fólk og frumkvöðla til lengri og skemmri tíma sem vill koma og upplifa einstaka kraftbirtingu og sköpun Önundarfjarðar.

Í fréttatilkynningu frá Skúrinni segir:

 

Skúrin er samfélagfélagsmiðstöð, suðupottur hugmynda og viðhorfa, fyrirtækjahótel og frumkvöðlasetur. Skúrin er skapandi dæmi um bjarta framtíð þorps á Vestfjörðum. Skúrin er til húsa í gömlu símstöðinni á Flateyri. Nafnið vísar til atvinnusögu Flateyrar en orðið er vestfirskt, skúr í kvenkyni s.s. beitningaskúr. Skráð dæmi um þessa orðmynd eru þó einungis tvö, úr ársriti Ísfirðinga frá 1960 og í grein eftir Skúla Thoroddsen í Þjóðviljanum gamla frá þeim tíma sem hann var sýslumaður Ísafjarðarsýslu skömmu eftir aldamótin 1900. Á Flateyri dagsins í dag er Skúrin staðsett í Ólafstúni en Sigurður Hafberg hefur góðfúslega lánað nafnið á sinni skúr yfir á þetta nýja verkefni.

 

Skúrin verður frá 1. september opin fyrir samskipti, sköpun og frumkvæði fyrir þá sem þora.

 

Áætlun gerir ráð fyrir að stofnkostnaður Skúrinnar verði 16 milljónir króna, en félagið hefur þegar fengið samþykkt kauptilboð í jarðhæðina í Símahosteli undir starfsemi sína með fyrirvara um fjámögnun. Landsbankinn hefur veitt lánsvilyrði fyrir 10, 5 mkr. láni og safnað hefur verið vilyrðum um hlutafé fyrir samtals 4,6 mkr. Meðal væntanlegra hluthafa eru Ísafjarðarbær (1,5 mkr.), Arctic Fish (1 mkr.), Lýðskólinn (1 mkr) og einstaklingar á Flateyri (1,1 mkr). Þar vantar þó ennþá 6-900 þúsund í hlutafé og leitar undirbúningshópur um verkefnið því til íbúa og velunnara Flateyrar um hlutafjárframlag. Þess má geta að rekstraráætlun gerir ráð fyrir að greiddur verði árlegur 8% arður af hlutafé og þegar hefur verið gengið frá leigusamningum um aðstöðu sem tryggja rekstur félagsins. Skrifstofa hjá Skúrinni kostar 36.500,- kr. á mánuði en aðstaða í opnu vinnurými 18.500,- kr. Skammtímaleiga fyrir aðstöðu í opnu rými kostar 25.000,- kr. á mánuði eða 10.000,- kr. á viku.

 

Þeim sem vilja taka þátt í stofnun félagsins með hlutafjárframlagi  eða leigja af því vinnustöð er bent á að hafa samband við Runólf Ágústsson verkefnastjóra í síma 695-9999 eða í netfangið runolfur@runolfur.is

DEILA