Sjávarútvegsráðherra: 40 m.kr. styrkur til að kynna íslensk hráefni – ekki eldislaxinn

Klúbbur matreiðslumeistara og Íslenska Bocuse d´Or Akademían (f.h.) Frú Eliza Reid, forsetafrú og verndari Kokkalandsliðsins, Andreas Jacobsen, gjaldkeri Klúbbs matreiðslumanna, Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Friðgeir Ingi Eiríksson hjá Íslensku Bocuse d´Or Akademíunni og Fanney Dóra Sigurjónsdóttir, varaformaður Klúbbs matreiðslumeistara

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra hefur skrifað undir samning við klúbb matreiðslumeistara og íslensku Bocuse d’or Akademíuna um 40 milljón króna styrk ríkisins á þessu og næsta ári til þess að vekja athygli erlendis á íslensku hráefni  og styrkja ímynd íslands sem mataráfangastaðar.

Samkvæmt samningnum er greiðslan stuðningur við þátttöku í Bocuse d’Or keppninni sem haldin er í Lyon í Frakklandi annað hvert ár. gerður verður samstarfssamningur við Menntaskólann í Kópavogi um kynningu á keppninni og mikilvægi matreiðslukeppna. Annar samstarfssamningur verður gerður við Íslandssstofu um markaðs- og kynningarverkefni á íslenskum matvælum erlendis.

Eldislax – nei takk

Andreas Jacobsen, gjaldkeri í klúbbi matreiðslumeistara undirritaði samninginn fyrir þeirra hönd. Hann sagði í samtali við Bæjarins besta að það hefði ekki komið til tals hvort eldislax framleiddur á Íslandi yrði kynntur en sagðist myndu svara spurningunni neitandi svona í fyrstu. Andreas sagði að klúbburinn hefði ekki kynnt eldislaxinn og hann sagðist ekki sjá það í hendi sér að það yrði gert. Andreas tók fram að hann gæti ekki talað fyrir hönd stjórnarinnar.

Ásta Sigrún Magnúsdóttir upplýsingafulltrúi  Atvinnuvegaráðuneytisins segir í svari sínu til Bæjarins besta um það hvort eldislaxinn verði meðal hráefnis sem verði kynnt erlendis að í samningnum sé ekki sérstaklega vikið að einstökum tegundum íslensks hráefnis.

Fyrir tveimur árum gerði Arnarlax samning við kokkalandsliðið, sem er á vegum klúbbs matreiðslumeistara,  um kynningu á íslenskum eldislaxi. Varð af því ólga meðal matreiðslumeistara og Sturla Birgisson, matreiðslumeistari, sem leigir Laxá á Ásum við Blönduós og rekur þar veiðihús, sagði sig úr klúbbnum. Þá ákváðu tólf kokkar að draga sig úr kokkalandsliðinu vegna samningsins. Af  þeim eru nú fimm á félagaskrá klúbbs matreiðslumeistara. Einn þeirra fimm er Fanney Dóra Sigurjónsdóttir, sem er nú varaformaður klúbbsins.

Klúbbur matreiðslumeistara tilgreinir Arnarlax ekki sem samstarfsaðila á vefsíðu sinni.

DEILA