Fyrir helgina var formlega hleypt af stokkunum undirbúningi að endurskoðun byggðaáætlunar 2018-24. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra boðaði af því tilefni til samráðsfundar í Hafnarborg í Hafnarfirði og jafnframt var boðið upp á þátttöku í fjarfundi. Á fundinum var farið yfir stöðu byggðamál og samráð um endurskoðunina hófst. Fram kom að taka á saman grænbók um framkvæmd áætlunarinnar til þessa, hvað hefur gengið vel og hvað betur má fara.
Á fundinum voru haldin erindi sem tengjast byggðamálum og lýstu framkvæmdastjórar landshlutasamtakanna reynslu sinna landshluta af byggðaáætluninni en mörg verkefni byggðaáætlunar eru unnin í samstarfi við þau.
Byggðaáætlunin samanstendur af 54 verkefnum sem unnið er að á tímabilinu. Meðal evrkefna er til dæmis Ísland ljóstengt sem er til þess að öll lögheimili og fyrirtæki með heilsársbúsetu eða starfsemi í dreifbýli eigi kost á ljósleiðaratengingu. Því verkefni á að ljúka á þessu ári og er markmiðið að þá eigi 99,9% lögheimila/fyrirtækja með heilsársbúsetu/starfsemi í dreifbýli kost á minnst 100 Mb/s þráðbundinni nettengingu.
Annað verkefni er að styðja verslun í strjálbýli. Fékk m.a. Verzlunarfjelag Árneshrepps þriggja ára verkefnastyrk sem veittur var á grundvelli byggðaáætlunar. Styrkurinn nam 7,2 milljónir kr. yfir allt tímabilið, eða 2,4 milljónir árlega 2019-2021.
Þriðja verkefnið sem nefna má eru áform um niðurgreiðslur flugfargjalda með „skosku aðferðinni“ sem hefjast á í haust. Sérstakur verkefnahópur er að útfæra framkvæmd greiðsluþátttöku ríkisins í farmiðakaupum. Veittar voru í fyrra 10 m.kr. af byggðalið til þess að styrkja áætlanaflug til Bíldudals, Gjögurs og Hornafjarðar.