Reykhólar: Ráðuneytið tekur skuldbindingar til skoðunar

Skrifstofa Reykhólahrepps. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Ráðuneyti sveitarstjórnarmála mun taka til skoðunar lántökur Reykhólahrepps án samþykkis sveitarstjórnar. Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Bæjarins besta.

Fyrst tekið lán og svo óskað eftir því

Tildrög málsins eru þau að núverandi oddviti Reykhólahrepps, Árný Huld Haraldsdóttir greindi frá því á síðasta fundi sveitarstjórnar að 60 m.kr. yfirdráttur hafi verið fenginn í Landsbankanum í desember 2019 eftir að þrír sveitarstjórnarmenn fóru fram á það skriflega. Hefði sveitarstjóri skuldbundið sveitarfélagið og fjórir af fimm sveitarstjórnarmönnum hefðu einnig skrifað undir skilmálana.

Sérstaka athygli vekur að undirskrift fjórmenningana undir skilmála bankans er 15. nóvember 2019 eða rúmum mánuði áður en bréfið er dagsett sem er 17. desember 2019 þar sem óskað er eftir yfirdráttarheimildinni.

Árný Huld sagði í bókun sem hún lagði fram að ákvörðunin um að taka yfirdrátt fyrir hönd
Reykhólahrepps hefði  ekki tekin á sveitarstjórnarfundi og ekki kynnt fyrir öllum sem sitja í
sveitarstjórn. „Tveir sveitarstjórnarmenn voru ekki á neinn hátt upplýstir um yfirdráttinn og
komust að því að yfirdrátturinn hefði verið tekinn nokkrum mánuðum seinna.“ Kvaðst oddvitinn setja út á vinnubrögðin við lántökuna. Hún bendir á í bókun sinni að:

„einvörðungu sveitarstjórn geti tekið ákvarðanir um málefni er varða verulega fjármál sveitarfélagsins. Til slíkra málefna teljast m.a. ákvarðanir um lán, ábyrgðir og aðrar fjárhagslegar skuldbindingar sveitarfélags.“

Ingimar Ingimarsson, þáverandi oddviti og núverandi varaoddviti er þessu ósammála og segir í bókun á sama fundi að undirskriftir meirihluta sveitarstjórnar séu ákvörðun sveitarstjórnar.

Bæjarins besta hefur nú undir höndum afrit af bréfunum.

Í leyfi en skrifar samt undir

Sveitarstjórnarmennirnir þrír sem skrifuðu undir bréfið til Landsbankans voru Ingimar Ingmarsson, þáverandi oddviti, Embla Dögg  Bachmann Jóhannsdóttir og Ágústa Ýr Sveinsdóttir.

Þeir sem skrifuðu undir skuldbindingarnar við Landsbankann fyrir hönd sveitarstjórnar voru Ingimar Ingimarsson, Karl Kristjánsson, Jóhann Ösp Einarsdóttir og Embla Dögg Bachmann Jóhannsdóttir.

Þann 12. nóvember veitt sveitarstjórn Reykhólahrepps Karli Kristjánssyni leyfi frá sveitarstjórnarstörfum frá 1. nóvember 2019 til 1. júní 2020. Það kom samt ekki í veg fyrir að Karl skrifaði undir skilmála Landsbankans vegna yfirdráttarheimildarinnar hálfum mánuði seinna þrátt fyrir að vera ekki starfandi í sveitarstjórninni.

Ljóst er að Árný Huld Haraldsdóttir, oddviti vissi ekki af þessu máli fyrr en það var löngu um garð gengið.

Ráðuneytið: einvörðungu sveitarstjórn getur tekið ákvörðun

Sveitarstjórnarráðuneytið segir í svari sínu til Bæjarins besta:

„Þær almennu reglur sveitarstjórnarréttar sem gilda um lántöku sveitarfélaga er m.a. að finna í 58. gr. sveitarstjórnarlaga. Þar kemur fram að einvörðungu sveitarstjórn getur getur tekið ákvörðun um málefni sem varða veruleg fjármál sveitarfélaga. Til slíkra málefna teljast m.a. lán, ábyrgðir eða aðrar fjárhagslegar skuldbindingar sveitarfélags sbr. 5. tl. 1. mgr. 58. gr. sveitarstjórnarlaga. Þá kemur fram í 55. gr. sveitarstjórnarlaga að framkvæmdastjóri sveitarfélags er prókúruhafi þess, og undirritar hann skjöl er varðar lántökur og önnur skjöl er fela í sér skuldbindingar sem samþykki sveitarstjórnar þarf til.“

Ráðuneytið segist ekki hafa skoðað þetta tiltekna mál í Reykhólahreppi og svarar almennt. Svarið er afdráttarlaust hvað það varðar að ákvörðun af þessu tagi verður aðeins tekin á formlegum fundi sveitarstjórnar. Það að halda formlegan fund  krefst þess að auglýsa verður fund með dagskrá og gera fyrirfram opinberlega kunnugt hvað standi til. Af svarinu leiðir að ekki er gilt að safna undirskriftun utan fundar.

Vísar ráðuneytið til álits sem það gaf út 2014 í máli Rangárþings eystra. Þar hafði sveitarfélagið lánað fé án samþykkis sveitarstjórnarinnar til félags í eigu sveitarfélagsins og verkalýðsfélagsins og einnig lánað fé til Vatnsveitu Rangárþings ytra og Ásahrepps.

Ámælisverð framkvæmd og skýrt brot

Um þetta segir í áliti ráðuneytisins :

„Er það skýrt brot gegn framangreindum ákvæðum 63. gr. sveitarstjórnarlaga um bindandi áhrif fjárhagsáætlunar ársins. Þá lá ekki heldur fyrir annars konar formlegt samþykki sveitarstjórnarinnar fyrir lánveitingunum. Var hér því um mjög ámælisverða framkvæmd að ræða sem þáverandi sveitarstjórn Rangárþings ytra bar ábyrgð á, sbr. 1. mgr. 77. gr. sveitarstjórnarlaga.“

Um eftirlitshlutverk ráðuneytisins segir að ráðuneytið getur „ákveðið sjálft að taka til formlegrar umfjöllunar stjórnsýslu sveitarfélags á grundvelli 112. gr. sveitarstjórnarlaga. Getur slíkri umfjöllun m.a. lokið með útgáfu leiðbeininga um túlkun laga eða stjórnsýslu sveitarfélags, áliti um lögmæti athafna sveitarfélags eða öðrum úrræðum sem þar er kveðið á um. Þar sem ráðuneytið hefur ekki tekið til umrætt mál í stjórnsýslu Reykhólahrepps til formlegrar umfjöllunar er ekki hægt svara fyrirspurninni nema með almennum hætti“

Það mun nú mun taka til skoðunar hvort að ástæða sé til að afla frekari upplýsinga vegna málsins.

DEILA