Reykhólahreppur aftur í launanefnd Sambands sveitarfélaga

Reykhólahreppur hefur óskað eftir því Samband íslenskra sveitarfélaga fari með samningsumboð sveitarfélagsins til kjarasamningsgerðar og stjórn Sambandsins féllst á það á fundi sínum 12. júní sl.  Tekur ákvörðunin gildi þegar sveitarfélagið hefur undirritað nýtt samkomulag við sambandið um samningsumboð.

Í fundargerð stjórnarinnar segir að fyrir liggi skýr vilji sveitarstjórnar Reykhólahrepps til að hlýta þeim skilyrðum sem felast í framsali fullnaðarumboðs til sambandsins.

Sveitarstjórn Reykhólahrepps ræddi þessi mál á fundi sínum 19. maí og þar var samþykkt með 4 atkvæðum gegn 1 að ganga  á ný inn í launanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Ingimar Ingimarsson, varaoddviti greiddi atkvæði gegn tillögunni og fram kemur í bókun hans að honum lítist illa á samstarf við launanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Reykhólahreppi ásamt Súðavíkurhreppi og Tjörneshreppi var vísað út úr samráði sveitarfélaga í byrjun október 2019  vegna brota á ákvæðum samn­ings Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga.  Höfðu þessi sveitarfélög ákveðið að greiða ófaglærðum starfsmönnum eingreiðslu  þrátt fyrir að að launanefnd sveitarfélaganna hefði lagst gegn því.

Tryggvi Harðarson, þáverandi sveitarstjóri Reykhólahrepps sagði við Bæjarins besta að viðbrögð hreppsins væri einfaldlega þau að semja sjálft við stéttarfélögin og hann sagðist ekki sjá það sem neitt sérstakt vandamál. Kjarasamningagerðin hefði sinn gang.

DEILA