Mýrarárvirkjun

Orkubú Vestfjarða starfrækir 7 virkjanir og er Mýrarárvirkjun sú minnsta sem nú er í rekstri, en álagið á henni er daglega um 30-40 kW.

Þessari virkjun er að öllu jöfnu sinnt frá Hólmavík, þar sem nú er engin búseta á Snæfjallaströnd. Virkjunin er hlekkur í rafmagnsframleiðslu í Ísafjarðardjúpi og tengd raforkulínum þar.

Undirbúningur að virkjun Mýrarár hófst árið 1961, þegar bændurnir á Mýri og í Unaðsdal tóku að athuga möguleika á virkjun fyrir þessa tvo bæi.

Við nánari athugun kom í ljós að grundvöllur var fyrir stofnun rafveitu í Snæfjallahreppi með aðild sjö bæja.

Árið 1963 var Rafveita Snæfjallahrepps stofnuð og var Engilbert Ingvarsson á Mýri fyrsti formaður rafveitunefndar.

Þá um haustið var rafstöðvarhúsið steypt en sumarið eftir var unnið við stíflugerð og þá voru rörin í þrýstipípuna lögð.

Sumarið 1965 var háspennulína lögð og um haustið var lagður þriggja kílómetra sæstrengur út í Æðey. Vélarnar voru settar niður í október og hinn 29. október 1965 var rafmagni hleypt á spennistöðina við Mýri.

DEILA