Ísafjörður: Helgi Björnsson og reiðmenn vindanna í Edinborgarhúsinu

Á morgun verður Helgi Björnsson ásamt reiðmönnum vindanna með tónleika í Edinborgarhúsinu á Ísafirði. Um er að ræða tónleikaherferð um landið sem unnin er upp úr þáttunum í vetur Heima með Helga sem sýndir voru í sjónvarpi Símans og nutu mikilla vinsælda.

Tónleikarnir hefjast kl 21 og húsið verður opnað kl 20. Miðasala er á tix.is.

Í gær var stór dagur hjá Helga, þar sem hann var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu og var auk þess útnefndur sem borgarlistamaður í Reykjavík.

Helgi hélt síðast tónleika á Ísafirði fyrir 6 árum að því er hann hélt og þá í Edinborgarhúsinu. Hann sagði í samtali við Bæjarins besta að hann og hljómsveitin myndu flytja að mestu efnið frá þáttunum en þar sem þeir væru á Ísafirði myndu verða fluttar gamlar perlur frá BG og Ingibjörgu. Hvaða lög það gæti verið vildi hann ekki ljóstra upp um að sinni.

DEILA