Hafrannsóknarstofnun: ótraust fjármögnun

Rannsóknarskip Hafrannsóknarstofnunar. mynd: Svanhildur Egilsdóttir.

Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar segir í ársskýrslu stofnunarinnar, sem nýlega hefur verið birt, að fjármögnun á grunnstarfsemi hennar byggi ekki á nægilega traustum grunni. Segir hann að það hafi truflað rannsóknastarfsemi Hafrannsóknastofnunar.

Á forstjórinn þar við að talsverður hluti starfseminnar er fjármagnaður af opinberum sjóðum og hefur  Verkefnasjóður sjávarútvegsins verið þar langstærstur.

„Við greiðslufall Verkefnasjóðs í lok árs 2018 stóð stofnunin skyndilega mjög illa þar sem það vantaði 140 milljónir í rekstur ársins 2018 og annað eins í rekstur ársins 2019“ segir Sigurður í ávarpi forstjóra í ársskýrslunni.

Nú hefur þessu verið breytt þannig að greiðslur renna eftir sem áður í Verkefnasjóð og þaðan í ríkissjóð. Ríkisframlag til stofnunarinnar var hækkað á móti þannig að ríkissjóður tekur sveiflurnar sem verða í Verkefnasjóði. En engu að síður þurfti að fara í erfiðar hagræðingaraðgerðir í lok árs 2019 þar sem fækkað var í yfirstjórn og stoðþjónusta skert  segir Sigurður Guðjónsson.

„Hagræðingarkrafa upp á 2 % á ári er umtalsverð og í tilfelli Hafrannsóknastofnunar þýðir það lækkun í fjárveitingu um 90 milljónir á ári sem tekur í, sérstaklega ef áfram er haldið ár eftir ár. Þetta er í beinni andstöðu við auknar áherslur í hafrannsóknum.“ segir í ávarpinu og bætir forstjórinn því við að heppilegast væri að Hafrannsóknarstofnun þyrfti ekki að sæta hagræðingarkröfu.

Nýtt húsnæði og nýtt skip

Á föstudaginn  flutti stofnunin í nýtt og glæsilegt húsnæði við Fornubúðir 5 í Hafnarfirði. Húsnæðið er leigt til 25 ára. Þar verður öll aðstaða á einum stað bæði rannsóknaaðstaða og útgerð. Rannsóknaskipin liggja í Hafnarfjarðarhöfn við nýjan viðlegukant rétt utan við húsið. Nýja húsið er glæsileg bygging þar sem hugsað er fyrir öllum þörfum stofnunarinnar og er mikil framför fyrir starfsemina.

Unnið er að undibúningi smíði skips fyrir stofnunina sem til stendur að bjóða út vorið 2020 og að því stefnt að smíði þess verði lokið á árinu 2022.

 

DEILA