Gleðilega þjóðhátíð – lýðveldið 76 ára

Frá Hrafnseyri. Myndin er tekin þjóðhátíðardaginn 2018. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Þjóðhátíðardagur Íslendinga er í dag. Lýðveldið Ísland var stofnað á Þingvöllum og tók við af konungsríkinu Ísland. Liðin eru rétt 76 ár frá fullu sjálfstæði þjóðarinnar. Það þótti við hæfi að velja fæðingardag Jóns Sigurðssonar, 17. júní, sem stofndag lýðveldisins.

Haldin var þjóðaratkvæðagreiðsla um slit sambandsins við Dani og stofnun lýðveldis. Kjörsókn var 98%. Af þeim ríflega 73.000 manns sem greiddu atkvæði voru 99,5% samþykkir sambandsslitum við Dani og 98,3% stofnun lýðveldisins.

Íbúafjöldinn 1944 var um 126 þúsund manns. Nú eru landsmenn um 365 þúsund. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan og hefur efnahagur landsmanna og lífskjör hafa tekið slíkum framförum að engin dæmi eru um slíkt í Íslandssögunni og vandfundin eru erlendis dæmi um sambærilegar breytingar, hvort heldur sem litið er til efnahags, heilsufars, menntunar, aðbúnaðar eða mannvirkja.

Hátíðadagskrá verður að venju að Hrafneyri við Arnarfjörð, fæðingarstað Jóns Sigurðssonar og einnig hefur vegleg dagskrá verið auglýst á Ísafirði, í Bolungavík og á Patreksfirði.

Bæjarins besta óskar lesendum sínum og Vestfirðingum gleðilegra þjóðhátíðar.

Forseti Ísalnds, Guðni Th. Jóhannesson var gestur á Hrafnseyri fyrir tveimur árum.

 

DEILA