Flateyri: ný fiskvinnsla

Hrefna með vöruúrvalið. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Fiskvinnslan Hrefna ehf hóf starfsemi á Flateyri fyrr í þessum mánuði. Eigandi og framkvæmdastjóri er Önfirðingurinn Hrefna Valdimarsdóttir, en hún var síðast verkstjóri í fiskvinnslu West Seafood ehf. Hrefna keypti vörumerkið Ísfirðingur af Jónasi Halli Finnbogasyni frá Ísafirði. Framleidd er gæðamatvara úr eldislaxi og regnbogasilungi.  Hrefna segir að hún kaupi laxinn af Arctic Fish og silunginn af ÍS 47. Fiskurinn er ýmist grafinn eða reyktur og eru þrjár mismunandi tegundir pakkaðar inn í neytendaumbúðir.

Við vinnsluna á Flateyri eru 3 starfsmenn og einn er fyrir sunnan sem sér um dreifingu. Hrefna segir að henni lítist bara vel á framhaldið, sala gangi vel, „við erum í Samkaupskeðjunni og á Heimkaup.is og Melabúðinni í Reykjavík, förumsvo inn í Fríhöfnina í Keflavík.“

Að sögn Hrefnu er næst á dagskráinni að auka vöruúrvalið og komast inn á veitingahúsamarkaðinn og þann geira.

Reyktur regnbogasilungur kominn í Nettó á Ísafirði.
Vinnslan fer fram í þessu húsnæði á Flateyri.

 

 

 

 

DEILA