Dr. Verónica Méndez Aragón ráðin fagstjóri meistaranáms hjá Háskólasetrinu

Dr. Verónica Méndez Aragón hefur verið ráðin fagstjóri meistaranáms í haf- og strandsvæðastjórnun.

Nýr fagstjóri hefur verið ráðinn til Háskólaseturs Vestfjarða fyrir námsleiðina Haf- og strandsvæðastjórnun. Alls bárust 22 umsóknir um starfið, þar af tólf umsækjendur með doktorsgráðu.
Viðtöl voru tekin við alla umsækjendur með doktorsgráðu og komst valnefnd að þeirri niðurstöðu að ráða Dr. Verónika Méndez Aragón til starfa.

Verónica Méndez Aragón er með doktorsgráðu í vistfræði lífverusamfélaga (Community Ecology) frá East Anglia háskóla í Bretlandi, meistaragráðu í líffræðilegri fjölbreytni frá Háskólanum í Plymouth, í Bretlandi og BSc gráðu í sjávarlíffræði frá Fairleigh Dickinson háskólanum í Bandaríkjunum.
Auk þess hefur hún lokið diplómu í umhverfisstjórnun sjávar frá International University Study Centre á Spáni. Veronica Mendez Aragon hefur síðustu árin unnið sem rannsóknarmaður við Háskóla Íslands og University of East Anglia.

Veronica er alþjóðlega viðurkenndur sérfræðingur í vistfræði vaðfugla og hefur verið þátttakandi í fjölda rannsóknarverkefna í Evrópu í því sambandi.
Undanfarin fimm ár hefur hún birt 11 greinar í virtum vísindatímaritum og kynnt rannsóknir sínar á mikils metnum alþjóðlegum ráðstefnum (British Ecological Society, British Ornithologist’ Union, International Ornithological Congress, Wader Study Gruopu, VISTIR)

Undanfarið hefur hún að mestu starfað við rannsóknir hjá Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Laugarvatni og m.a. birt greinar með samstarfsfólki við Náttúrustofu Vestfjarða.
Hún mun því án vafa falla vel inn í hið ört vaxandi rannsóknarsamfélag á Vestfjörðum.

Dr. Veronica Méndez Aragón hefur störf við Háskólasetrið þann 1. október næstkomandi en fram að þeim tíma verður Dr. Matthias Kokorsch, fagstjóri meistaranáms í sjávarbyggðafræði, starfandi fagstjóri haf- og strandsvæðastjórnunar.

DEILA