Á morgun laugardag verður aðalfundur Landverndar haldinn í Tunglinu Lækjargötu 2a í Reykjavík. Á aðalfundinum verður Andri Snær Magnason heiðraður fyrir mikilvægt framlag sitt til umhverfismála.
Einnig verða á dagskrá aðalfundar venjuleg aðalfundastörf og afgreiðsla lagabreytingatillagna. Í stjórn Landverndar sitja tíu manns. Á aðalfundi 2020 verður kosið um sex stjórnarmenn til tveggja ára.
Ályktanir aðalfundar verða einnig afgreiddar en stjórn Landverndar hefur lagt fram tillögu um 6 ályktanir fyrir fundinn.
Friðlýsa Drangajökulsvíðerni
Meðal annarra tillagna verður tillaga um Drangajökulsvíðerni, þar sem aðalfundurinn hvetur umhverfis- og auðlindaráðherra til þess að friðlýsa Drangajökul og víðerni umhverfis
hann og leggi tillögu þess efnis fyrir Alþingi við fyrsta tækifæri. Í framhaldi af því verði svæðið skráð í flokki 1b á Heimslista verndarsvæða Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin, IUCN.
Í annarri tillögu segir að Hvalárvirkjun hafi ranglega verið sett í nýtingarflokk í Rammaáætlun og er Alþingi hvatt til þess að leiðrétta þau mistök.