Ferja á Gemlufalli á sér langa sögu

Uppsetning á Söguskilti um Lögferju á Gemlufalli. — with Heiðdís Birta Jónsdóttir Thompson, Jón Skúlason

Í vikunni var á Bæjarins besta sagt frá því Jón Skúlason bóndi á Gemlufalli hefur látið gera upplýsingaskilti við ferjustaðinn á Gemlufalli. Borist hafa frekari upplýsingar um tildrög málsins og sögulegt yfirlit.

Lögferja var á Gemlufalli allt frá fornöld og er hennar getið fyrst á 10. öld í Gísla sögu Súrssonar. Ferjuskyldan lagðist ekki af fyrr en bílvegur var gerður fyrir Dýrafjörð. Mýrahreppur hinn forni sá svo um ferjuflutninga, í annarri mynd þar til seint á 20. öld, nánar til tekið þegar brúin kom yfir fjörðinn.

Jón Skúlason sótti um og fékk styrk frá ÖLL VÖTN FALLA TIL DÝRAFJARÐAR (sem er verkefni Brotthættra byggða á vegum Byggðastofnunar). Með því vildi hann leggja áherslu á að búa til og setja upp söguskilti þar sem saga ferjustaðarins við Gemlufall í Dýrafirði, kæmi fram.

Helstu ávinningar af verkefninu er að veita heimafólki og ferðamönnum upplýsingar um ferjustaðinn við Gemlufall. Fátt er í dag, sem minnir á hlutverk ferjunnar í Dýrafirði, enda samgöngur mikið breyttar frá því sem áður var.

Þekking á ferjusiglingum yfir Dýrafjörð er nú að hverfa og mikilvægt er að viðhalda og koma fróðleik á framfæri við nýja kynslóð og fjölda ferðamanna, sem eiga leið um Dýrafjörð.

Jón Skúlason bóndi á Gemlufalli, stýrði verkefninu og voru margir sem komu að með dyggri aðstoð og óeigingjarnri vinnu og eiga miklar þakkir skyldar.

Sigurður Pétursson, sagnfræðingur sá um heimildaöflun og sagnfræðilega skráningu á texta og myndaval.

Þorsteinn Hjaltason sá um þýðingu á texta.

Sigurgeir Skúlason sá um grafíska hönnun.

Vegagerðin ríkisins sá um uppsetningu undir stjórn Guðmundar Björgvinssonar.

Í textanum sem Sigurður Pétursson tók saman segir m.a.:

„Elstu frásögn um ferjuflutning frá Gemlufalli er að finna í Gísla sögu Súrssonar, sem gerist seint á 10. öld. Þar segir frá hinstu för Vésteins Vésteinssonar fóstbróður Gísla Súrssonar er hann kom úr Önundarfirði á leið í heimboð til Gísla í Haukadal í Dýrafirði. Gísli reyndi að snúa Vésteini frá því að koma, en sendimenn fóru á mis við Véstein og náðu ekki til hans fyrr en efst á Gemlufallsheiði. Þá sagði hann hin fleygu orð: „Nú falla öll vötn til Dýrafjarðar, ok mun ek þangað ríða, enda em ek þess fúss.“ Vésteinn reið ofan heiðina og til Lútu frændkonu sinnar sem bjó á Gemlufalli. Hún lét ferja hann yfir fjörðinn til Þingeyrar. Í Haukadal mætti Vésteinn örlögum sínum og af dauða hans spunnust örlagaþræðir útlagans Gísla Súrssonar.

Allt frá þeim tíma hefur verið ferjustaður á Gemlufalli. Um aldir bjuggu valdamiklar ættir í Arnarfirði og Dýrafirði, Seldælir. Þeir starfræktu ferjur bæði í Arnarfirði og á Breiðafirði. Meðal helstu höfðingja þeirra á Sturlungaöld voru Hrafn Sveinbjarnarson læknir og goðorðsmaður á Hrafnseyri (d. 1213) og dóttursonur hans Hrafn Oddsson hirðstjóri (d. 1289).“

Og ennfremur:

„Lögferja var á Gemlufalli. Ferjan fékk aukið hlutverk með bættum samgöngum á 20. öld, einkum eftir að bílvegur opnaðist yfir Gemlufallsheiði 1932 og síðar norður um til Ísafjarðar. Nýr ferjubátur var fenginn til Gemlufalls eftir 1940. Það var lífbátur frá erlendu skipi sem rak upp í Ísafjarðardjúpi á stríðsárunum, úr valinni eik. Í hann var sett vél af Lister gerð. Til að auðvelda flutninga var steypt bryggja við Gemlufallssjó árið 1948. Áður stóð dragspil á sjávarbakkanum, notað við setningu bátsins. Nýtt bátaskýli eða naust var steypt upp árið 1960 og stendur enn. Síðar var sett upp rafdrifið spil og dráttarbraut. Loks lét Vegagerðin gera grjótgarð hærri og lengri en bryggjan. Fremst á honum er viðlegukantur úr timbri.

Ferjubáturinn á Gemlufalli þjónaði líka sem dráttarbátur fyrir bílaferju sem gekk yfir Dýrafjörð. Bílferjan var í eigu Kaupfélags Dýrfirðinga og gat flutt tvo fólksbíla eða einn vörubíl. Hún var mikið notuð til ýmisskonar flutninga á Dýrafirði, en mest til að ferja bíla yfir fjörð. Ekið var inn í ferjuna að aftan, eftir að gaflflekinn var lagður niður til að hann myndaði landgang eða skábraut upp í ferjuna. Ætíð var bakkað inn í ferjuna, til að hægara væri að aka úr henni upp í fjöruna. Á þessum tíma voru ferjumenn Jón Guðmundur Ólafsson, Valgeir Jónsson og Skúli Sigurðsson bændur á Gemlufalli. Höfðu þeir oft ærinn starfa við flutninginn, því margir áttu leið yfir fjörðinn, á öllum tíma sólarhrings. Bílferjan lauk hlutverki sínu þegar vegur opnaðist fyrir Dýrafjörð árið 1955 og jafnframt lagðist ferjuskylda af.“

DEILA