MÍ: 50 ára afmælisár framundan

Frá brautskráningunni í Ísafjarðarkirkju.

Brautskráning Menntaskólans á Ísafirði fór fram síðastliðinn laugardag. Í skýrslu Jóns Reynis Sigurvinssonar skólameistara kom fram að á haustönn  voru 442 nemendur skráðir í nám við skólann og gekk skólastarf haustannar vel. Að venju voru nýnemar í dagskóla á haustönn, sem voru 39 talsins, boðnir velkomnir í skólann í nýnemaferð að Núpi í Dýrafirði.

Vorönn hófst þann 6. janúar. Aldrei hafa fleiri nemendur verið skráðir við nám við skólann eða alls 467 talsins. Skólameistari sagði í útskriftarræðu sinni að skólinn væri í mikilli sókn og stöðugur vöxtur hefði verið í nemendafjölda undanfarin ár með tilkomu fjarnáms- og dreifnámskennslu við skólann.

Skólahaldið á vorönninni mótaðist að vonum mikið af samkomubanninu 13. mars vegna kórónaveirunnar með tilheyrandi skólalokun fyrir alla framhaldsskóla landsins. Var sett á fót neyðarstjórn við skólann til þess að takast á við viðfangsefnin. Jón Reynir sagði að starfsmenn og nemendur hefðu unni þrekvirki við þessar fordæmalausu aðstæður. Þarna hefði komið mjög vel í ljós að skóli er ekki hús heldur allt fólkið sem í honum vinnur og stundar nám.

„Við stóðum frammi fyrir stórum áskorunum með tilheyrandi áhyggjum en þær áhyggjur voru að ýmsu leyti óþarfar. Starfsfólkið okkar bretti upp ermar og tókst á augabragði að venda allri kennslu sem mögulegt var í fjarnám. Þar kom áralöng reynsla af fjarnámi innan skólans að góðum notum. Það að kenna alfarið í fjarnámi var miklu stærra í sniðum en það sem við áður þekktum.“

Rúmlega fjórðungur nemenda er á afreksíþróttasviði skólans og sinna þar afreksþjálfun í dansi, blaki, handbolta, knattspyrnu, körfubolta og skíðagöngu. Verknámsnemendur skólans eru, miðað við marga aðra framhaldsskóla, óvenjumargir en á vorönninni voru tæp 40% nemenda í verknámi.

Skólameistari lauk skýrslu sinni með því að vekja athygli á því að framundan væri 50 ára afmæli skólans.

Hæsta meðaleinkunn frá upphafi

Dux Scholae er Þuríður Kristín Þorsteinsdóttir sem útskrifast með hæstu meðaleinkunn í sögu skólans eða frá því að fyrstu stúdentarnir útskrifuðust árið 1974.

Þuríður Kristín er stúdent af náttúruvísindabraut með meðaleinkunnina 9,74.

Samhliða námi í menntaskólanum hefur Þuríður Kristín verið í framhaldsnámi í píanóleik, söngnámi, tekið þátt í leiksýningum skólans og verið í Gettu betur liðinu. Hún er auk þess í hestamennsku og eignaðist einmitt folald daginn fyrir brautskráningu. Þuríður Kristín stefnir á nám í dýralækningum í haust.

Myndir: Menntaskólinn á Ísafirði.

DEILA