Vestfirskt hjólasumar framundan

Á myndinni er Elisabet Samúelsdóttir að hjóla

„Hjólasumarið virðist fara vel af stað“, segir Heiða Jónsdóttir formaður hjólreiðadeildar Vestra. „Frábært að sjá hve margir bæjarbúar hafa dregið fram hjólin og nota þau sem samgöngutæki, í leik, líkamsrækt. Kemur kannski ekki óvart þar sem hér er mikil hefð fyrir útiveru og hreyfingu. Hjólreiðar eiga það sameiginlegt með skíðum að vera almenningsíþrótt og þó margir keppi eru flestir að hjóla sér til skemmtunar og njóta þess að eiga samverustund með fjölskyldu og vinum.“  

Hjólreiðadeildin ætlaði nú að vera löngu farin af stað með dagskrá, en samkomubannið hefur aðeins sett strik í það. Í farvatninu eru æfingar, námskeið og samhjól. Heiða  hvetur fólk endilega til að hafa samband við hjólreiðadeildina á  https://www.facebook.com/Vestri-hj%C3%B3lrei%C3%B0ar-350301445621061  hjólreiðadeildarinnar ef það hefur einhverjar spurningar varðandi hjól og hjólreiðar. 

„Jájá, annars komum við bara ágætlega undan vetri, við erum búin að vera iðin við að sækja um styrki til uppbyggingar á svæðinu. Ástríða félaga í hjólreiðadeildinni liggur mikið í uppbyggingu við viljum við ólm gera bæinn okkar aðeins meira næs stað til að búa á og á sama tíma eftirsóknarverðari áfangastað.“ 

„Við fengum tvo styrki í vetur. Gerðum uppbyggingasamning við Ísafjarðarbæ sem við nýttum til þess að kaupa teikningu af hjólagarði við Grænagarð. Við höfum mikla trú á því að garðurinn hafi mikið aðdráttarafl eins og sambærilegir hjólagarðar hafa gert um allann heim. Að minnstakosti hefur verið mikil aðsókn í malarhólana sem Valli mokaði fyrir okkur í fyrra. Við sjáum fyrir okkur að hjólalgarðurinn væri opinn öllum eins og ærslabelgurinn, ef við berum þetta saman við skíðin þá er væri þetta svipað og að vera komin með hólabraut eða byrjendabrekku í bakgarðinn sem þarf hvorki að troða né keyra lyftur til þess að nýta. Hjólagarðurinn gæti svo líka verið nýttur af þeim sem rúlla á hjólaskautum, hjólabretti og hlaupahjóli.“ 

Fyrstu drög að garðinum voru að detta í hús segir Heiða en teikningin nær yfir mun stærra svæði en lagt var upp með. „Það væri gaman að ná að byggja hluta af svæðinu en til þess vantar okkur frekara fjármagn.“

Hjólreiðadeild Vestra fékk einnig styrk frá Ferðamálstofu til þess að merkja hjólastíga á dölunum tveimur. „Við ætlum að setja upp upplýsingaskilti með kortum, merkja leiðir, varhugaverða staði blindhorn og fleira. Einnig stefnum við að því að koma upp öryggismerkingum í samstarfi við helstu viðbragðsaðila á svæðinu. Við erum virkilega ánægð með þennan styrk, undistrikar að uppbygging á svona ferðamannastöðum sé mikilvæg enda er hreyfiferðamennskan alltaf að aukast og við höfum séð að fjöldi fólks kemur til að hjóla brautirnar. Okkur finnst Vestfirðir allir geta sótt verulega á er sem áfangastaður hjólreiðamannsins.“

 

DEILA