Strandveiðifélagið Krókur: sjávarútvegsráðherra verði leystur frá störfum

Strandveiðifélagið Krókur hefur sent forystumönnum ríkisstjórnarflokkanna bréf þar sem ítrekuð er krafa félagsins að Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verði leystur frá störfum.

Í umsögn félagsins um grásleppufrumvarp þann 2. janúar 2020, fór Strandveiðifélagið Krókur fram á að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Kristján Þór Júlíusson, segði sig frá málefnum smábátasjómanna.

Í bréfi Króks segir m.a.:
„Síðan þá hefur Kristján Þór aðeins áunnið sér frekara vantraust okkar, með seinagangi og aðgerðarleysi til að efla strandveiðiheimildir í tæka tíð, svo að bregðast megi við núverandi ástandi með tilslökunum.  Stöðvun grásleppuveiða þann 3. maí s.l. sýnir vel hug ráðherra.  Hann hefði getað fengið Fiskistofu til að stjórna, eða stuðst við tölur þaðan, þar sem sést jafnóðum hve mikið er komið á land.  Það hefði verið hægt að stöðva fyrstu bátana mikið fyrr, jafnvel við 30 daga?  Þeir sem fengu flesta daga fengu 44, aðrir örfáa og allt niður í núll.  Á innanverðum Breiðafirði eru nú gefnir allt að 15 dagar (sérhólf, eftir 20. maí).  
Þetta er hneyksli í aðgerðarstjórnun.“
Þá segir í bréfi félagsins til formanna stjórnarflokkanna:
„Strandveiðifélagið Krókur fer fram á við ykkur formenn stjórnarflokkanna, að leysa Kristján Þór Júlíusson frá starfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og setja lausnarmiðaðan einstakling í starfið.
Einhvern sem stígur ölduna í takt við aðgerðir ríkisstjórnar ykkar, til að spyrna sem mest við í þessu fordæmalausa atvinnuleysi og efnahagsástandi.
Við erum öll í þessu saman, nema Kristján Þór Júlíusson að því er virðist. Hæglega mætti nýta mismun á hámarksnýtingu aflamarkstegunda og raunverulegri nýtingu og veita honum m.a. til strandveiðikerfisins. Einnig leyfa flutning á ónýttum afla strandveiða síðasta árs, svo eitthvað sé nefnt.
Kristján Þór Júlíusson er ekki maður sem leitast við að finna lausnir á þessu ástandi sem við búum við núna og í nánustu framtíð. Við óskum eftir stuðningi ykkar og aðstoð við smábátasjómenn og landsbyggðina, við að koma réttlátum og lausnarmiðuðum aðila í starf hans.“
Formaður Króks er Einar Helgason Patreksfirði