Reykhólar: hætt við að auglýsa eftir sveitarstjóra

Sveitarstjórn Reykhólahrepps breytti fyrri ákvörðun um að auglýsa eftir sveitarstjóra og ákvað þess í stað að ráða Ingibjörgu Birnu Erlingsdóttur í starfið. Var ráðningin samþykkt með fjórum atkvæðum og Ingimar Ingimarsson fyrrverandi oddviti sat hjá. Ingibjörg er starfinu kunnug en hún gegndi því frá 2010 til 2018.

Þetta kemu fram í fundargerð sveitarstjórninnar frá 30. apríl sem hefur nú verið birt.

Tryggva Harðarsyni var sagt upp á fundi sveitarstjórnar þann 14. apríl og sætti uppsögnin þá gagnrýni m.a. var því haldið fram í bókun Ingimars Ingimarssonar að um brot á stjórnsýslulögum væri að ræða.  Uppsögnin var aftur lögð fyrir á síðasta fundi og hún staðfest öðru sinni með fjórum atkvæðum og einn fulltrúi sat hjá.

Þá kemur fram í fundargerðinni frá 30.4. að tveir heimamenn hafi sett sig í samband við oddvita og sýnt starfi sveitarstjóra áhuga. „Sveitarstjórn telur báða þessa aðila hæfa til starfsins. Sveitarstjórn þakkar þeim aðilum fyrir af hafa sýnt starfinu áhuga. Kostnaður við ráðningarferli í gegnum fyrirtæki sem bjóða þá þjónustu fer yfir 500.000.- kr. eins og sést í skjölum sem eru lögð fyrir fundinn. Þetta er dýrt og tímafrekt ferli.“

Ingimar Ingimarsson bókaði eftirfarandi um málsmeðferðina:

„Undirritaður fagnar því að nú sé komið uppsagnarbréf sem stenst lög og er nú staðfest. Undirritaður saknar þó rökstuðnings með uppsögninni sem við, íbúar sveitarfélagsins, eigum rétt á að fá að heyra. Það er til marks um flýtinn í málinu að þessi aukafundur er haldinn til að staðfesta uppsagnarbréf Tryggva Harðarsonar og að ráða nýjan sveitarstjóra án auglýsingar. Sérstaklega var tekið fram í bókun meirihlutans að auglýsa skyldi starf sveitarstjóra, í stað þess var leitað til aðeins tveggja einstaklinga í samfélaginu og gert mat um þá. Betra hefði verið að tilkynna það strax á síðasta fundi að þannig ætti að ráða sveitarstjóra, þá hefðu jafnvel fleiri sett sig í samband við oddvita og mætt í svona mat. Allt sýnir þetta okkur hversu mikilvægt er að vanda þá vinnu, það sem við segjum og ana ekki að neinu í flýti.“

Nýr fengin í lögfræðiaðstoð

Ahygli vekur að nýr aðili er fenginn til þess að veita Reykhólahreppi lögfræðiaðstoð í kærumálum vegna framkvæmdaleyfis vegna Þ-H leiðar. Samþykkti sveitarstjórnin með þremur atkvæðum að fá Jón Jónsson  hjá Sókn lögmannsstofu  til aðstoðar en sveitarfélagið þarf að verjast kærunum sem eru hjá úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál.

Jón hefur veitt Árneshreppi lögfræðilega aðstoð í kærumálum og dómsmálum sem reist hafa verið gegn hreppnum vegna síðustu sveitarstjórnarkosninga og vegna skipulagsbreytinga vegna Hvalárvirkjunar.

DEILA