Landvernd vill friðland í stað Hvalárvirkjunar

Landvernd boðar þá stefnu að í stað virkjunar á Ófeigsfjarðarhálendinu verði komið á fót friðlandi. Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar var innt eftir því hvað fælist í hugmyndinni.

„Í hugmyndinni felst að sett yrði á stofn friðland í flokki II og Ib  (þjóðgarður og vernd víðerna) á Drangajökulssvæðinu. Sérstaðan væri einstök saga svæðisins, ríkar menningarminjar, víðerni og einstakar náttúruminjar.  Markhópurinn væru ferðamenn, innlendir og erlendir sem leita í lítt snortna náttúru með mikla sögu.  Störf myndu skapast við landvörslu og umsýslu með friðlandinu og við þjónustu við ferðamennina eins og gistingu, leiðsögn, fræðslu og mtasölu.

Um væri að ræða verndarsvæði sem höfðaði til náttúruferðamanna sem dvelja gjarnan lengur og kjósa aðra upplifun en svæði í grennd höfðuborgarsvæðisins geta boðið upp á.  Um efnahagslegan ávinning samfélagsins á Ströndum er fjallað í skýrslu EnvironIce þar sem skýrt kemur fram að hann er umtalsvert meiri af svæðinu friðlýstu en virkjuðu.  Þá hefur Hagfræðistofnun Íslands skilað skýrslu um ávinning nærsamfélagsins af friðlýstum svæðum.

Vegna friðlýsingar Drangajökulssvæðisins liggja fyrir tvær úttektir: Annars vegar skýrsla frá Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökunum IUCN sem telur svæðið einstakt á innlendan og alþjóðlegan mælikvarða og að það eigi skilyrðislaust að vernda (sjá hér) og hins vegar tillaga Náttúrufræðistofnunar Íslands um að svæðið beri að setja á náttúruminjaskrá. Því er náttúruverndargildi svæðisins ótvírætt og skilyrði fyrir verndun þess sem víðerna eða sem þjóðgarðs uppfyllt skv. úttekt IUCN.   Á svæðinu eru einnig einstakar sögulegar minjar sem styrkja stöðu þess sem friðlands sem hefur að markmiði verndun náttúru og víðerna og fræðslu um náttúru og hefðbundnar nytjar hennar.  Verndarsvæði yrði nauðsyn í að markaðsetja sérstöðu svæðisins fyrir þeim ferðamönnum sem leita eftir þeirri upplifun sem það getur boðið.“

En hvernig á að leysa vanda Vestfirðinga sem fylgir ótryggri afhendingu rafmagns?

„Varðandi ótryggt rafmagn á Vestfjörðum gerði kanadískt fyrirtæki, Metsco, skýrslu fyrir okkur árið 2018 um málið þar sem fram kemur að farsælasta leiðin til þess að tryggja raforkuöryggi á Vestfjörðum eru jarðstrengir á bilanagjörnustu leiðunum og tafarlaus yfirfærsla á varaafl.  Í ekki svo fjarlægri framtíð gæti varafl verið rafgeymar en þar til það gerist díselrafstöðvar. Í fréttatilkynningu sem Landvernd sendi frá sér í janúar 2018 við útkomu skýrslunar segir “ Tillaga skýrsluhöfunda er að endurnýja Mjólkárlínu (MJ1) með jarðstreng og sömuleiðis fjórar 66 kílóvolta línur; Tálknafjarðarlínu 1 (TA1), Bolungarvíkurlínu 1 (BV1), Breiðadalslínu 1 (BD1) og Ísafjarðarlínu 1 (IF1). Um væri að ræða um 194 km leið samtals. Við þetta er raforkuöryggi talið batna tífalt.“ Skýrsluna og fréttatilkynninguna má lesa hér .