Krefjast stöðvunar á framkvæmdum við Hvalárvirkjun

Fjögur náttúruverndarsamtök hafa endurtekið kröfu sína um stöðvun framkvæmda við Hvalárvirkjun og lagt fram kæru til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál.

Borist hefur eftirfarandi fréttatilkynning frá Landvernd:

„Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Ungir umhverfissinnar og Rjúkandi hafa ítrekað kröfu sína um stöðvun framkvæmda við Hvalárvirkjun. Stöðvunarkrafa var einnig gerð í júlí í fyrra samhliða kæru sömu samtaka vegna framkvæmdaleyfis sem Árneshreppur veitti Vesturverki vegna fyrsta áfanga Hvalárvirkjunar.  Úrskurðanefnd umhverfis- og auðlindamála hafnaði stöðvunarkröfu samtakana í fyrra með þeim rökum að nefndin gæti lokið málsmeðferð áður en framkvæmdir hæfust sumarið 2020.  Nú hefur nefndin enn ekki úrskurðað og brátt geta framkvæmdir hafist í Árneshreppi.  Samtökin telja því brýnt að úrskurðarnefndin stöðvi framkvæmdir þar til hún hefur komist að niðurstöðu.

Alþjóðlegu nátturúruverndarsamtökin hafa tekið undir með samtökunum fjórum sem standa að kærunni um að svæðið beri að vernda.  Nánari upplýsingar um svæðið og margvíslega tengla má finna á heimasíðu Landverndar og á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands sem hefur lagt til að svæðið verði friðlýst.

Þá er vandséð hver þörfin er fyrir aukna raforkuframleiðslu þar sem ekki er raforkuskortur í landinu og 77% raforkunnar fer til stóriðju skv. orkutölum Orkustofnunnar 2018.  Hvalárvirkjun er ekki besta leiðin til þess að auka afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum og því er ekki um brýna almannahagsmuni að ræða við byggingu virkjunarinnar.“