Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt 3,4 m.kr. viðauka við fjárhagsáætlun 2020 vegna verkefnisstjóra á Flateyri sem ákveðið hefur verið að koma á fót. Starfið hefur þegar verið auglýst og rennur umsóknarfrestur út 18.maí.
Verkefnisstjórinn verður starfsmaður Ísafjarðarbæjar en ríkið greiðir helming launakostnaðar samkvæmt samningi þar um. Samningurinn er milli Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, Ísafjarðarbæjar og Vestfjarðastofu ses. og er um framkvæmd Nýsköpunar- og þróunarverkefnis fyrir Flateyri.
Um er að ræða 100% starf til þriggja ára og þarf viðkomandi að geta hafið störf sem fyrst. Meginstarfsstöð verkefnisstjóra verður á Flateyri.
Samningurinn byggir á greinargerð og tillögum aðgerðarhóps í kjölfar snjóflóðanna á Flateyri, dags. 2. mars 2020 og samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 14. apríl 2020 um
framkvæmd og eftirfylgni aðgerða.
Umræddur launakostnaður er kr. 6.800.000 fyrir tímabilið 18. maí 2020-31. desember 2020. Tekjur vegna helmings launakostnaðar fyrir sama tímabil er kr. 3.400.000 og fellur jafnhá fjárhæð á bæjarsjóð á árinu.
Viðaukinn verður tekinn fyrir til endanlegrar afgreiðslu á fundi bæjarstjórnar í dag.