grásleppuveiðar: haft verði samráð við hagsmunaaðila

Stjórn samtaka sjávarútvegssveitarfélaga ræddi á fundi sínum síðasta föstudag um stöðvun grásleppuveiða sem hefur valdið verulegri óánægju meðal grásleppuútgerðarmanna,einkum á vestanverðu landinu.

Stjórnin segir að  ljóst sé að ákvörðunin  hafi mikil áhrif, einkum á byggðarlög á vestanverðu landinu, þar sem útgerðum hefur víða ekki tekist að nýta nema lítinn hluta veiðidaga.

Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga áréttar mikilvægi þess að stjórnvöld byggi ákvarðanir sínar á skýrum almennum forsendum. Stjórnin telur mikilvægt að tryggja fyrirsjáanleika í sjávarútvegi þar sem því verður viðkomið og skapa þannig betri forsendur fyrir langtímaáætlanir og fjárfestingar einstaklinga og fyrirtækja.

Þá segir í bókun stjórnar:

„Grásleppuveiðar eru að mestu stundaðar frá minni sjávarbyggðum, sem margar hverjar eiga nú þegar undir högg að sækja. Af þeim sökum er brýnt að ákvarðanir séu sem mest teknar að höfðu samráði við hagsmunaaðila og með nægum fyrirvara og forðast þannig að rekstarhæfi lítilla útgerða sé stefnt í voða.“

Fundinn sátu: Gauti Jóhannesson, Baldur Smári Einarsson, Rebekka Hilmarsdóttir, Fannar Jónasson og Liv Aase Skarstad.  Þau Baldur Smári og Rebekka eru  fulltrúar Bolungavíkur og Vesturbyggðar.

Samtök sjávarútvegssveitarfélaga eru samtök þeirra sveitarfélaga sem hafa beinna hagsmuna að gæta varðandi nýtingu sjávarauðlindarinnar, veiðar og vinnslu, og er tilgangur samtakanna að vinna að sameiginlegum hagsmunum aðildarsveitarfélaga og íbúa þeirra í þeim málum sem tengjast nýtingu sjávarauðlindarinnar.  Samtökin voru stofnuð 2012 og voru 24 sveitarfélög sem stóðu að stofnuninni.

DEILA