Grásleppa: verkendur véfengja forsendur Hafró

Frá löndun grásleppu í Bolungavíkurhöfn. Mynd: Sigurgeir S. Þórarinsson.

Fjórir verkendur grásleppuhrogna hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir andmæla mati  Hafrannsóknarstofnunar um veiði fyrri ára. Telja þeir að stofnunin vanmeti verulega veiði á grásleppu á tímabilinu 1985 – 2007 og gagnrýna ályktun hennar um stofnstærð á þessum tíma.

Tilefnið er að Hafrannsóknarstofnunin lækkaði veiðiráðgjöf sína um nærri 600 tonn úr 5.200 tonn í 4.646 tonn og vísaði í grein eftir tvo starfsmenn stofnunarinnar sem telja að aflatölur viðmiðunarárana 1985 til 2008 hafi verið ofmetnar um 9%.

Axel Helgason , fyrrverandi formaður Landssambands smábátasjómanna hefur andmælt þessum forsendum Hafrannsóknarstofnunar og segir að vísindamennirnir hafi dottið í þá gryfju að reyna að nýta gamlar afladagbækur með gagnslausum upplýsingum í vísindalegum tilgangi, og frá þeim árum sem ekki var skylda að vigta hrogn eða grásleppu.

Axel hefur nú birt yfirlýsingu frá fjórum framleiðendum á verkuðum grásleppuhrognum sem segir að það þurfi að veiða 525 – 552 kg af grásleppu til þess að fá hrogn í eina tunnu af hrognum sem er flutt út. Segja verkendurnir að þetta hafi lítið breyst frá 1985.

Þar sem ekki liggja fyrir upplýsingar um hver veiðin var fyrir 2008 þegar fyrst var skylt að vikta grásleppuna og reyndar hrognin líka hefur Hafrannsóknarstofnun áætlað veitt magn út frá tunnufjölda hvers árs. Telur stofnunin að 425 kg af grásleppu þurfi til að fulla eina tunnu af hrognum. Það leiðir til þess að heildarveiðin er nú talin mun minni en verkendurnir staðhæfa.

Þessu andmæla verkefndurnir fjórir og segja að fullyrðing yfirmanns uppsjávarsviðs Hafrannsóknarstofnunar eigi ekki við rök að styðjast.

Hafrannsóknarstofnun hefur brugðist við yfirlýsingu verkendanna og telur ekki ástæðu til að breyta veiðiráðgjöf hrognkelsa á yfirstandandi vertíð. Það er mat stofnunarinnar að ekki séu forsendur fyrir að nota reiknistuðla fengna frá fullkomnum vinnslum í dag fyrir hrognatunnur fyrri ára þar sem tæknistigið var annað.

Verkendurnir Eiríkur Vignisson, Sigurður Ágústsson, Ásbjörn Jónsson og Lúðvík Börkur Jónsson  segja í sinni yfirlýsingu að nýting hafi ekki svo breyst frá 1985 að neinu nemi.

DEILA