Fjarfundur með framkvæmdastjórum sveitarfélaga

Mánudaginn 4. maí sl. hélt stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga samráðsfund með sveitarfélögunum þar sem öllum bæjar- og sveitarstjórum, sem og framkvæmdastjórum landshlutasamtaka var boðin þátttaka. Yfir 80 manns tóku þátt í fundinum, sem fór fram í gegnum Teams fjarfundarbúnaðinn.

Í byrjun fundar voru haldin erindi um fjármál sveitarfélaga og fjárþörf þeirra árin 2020-2021 og um stöðu og þróun í fjármálum ríkisins. Að því loknu var hópnum skipt niður í 10 umræðuhópa sem höfðu það hlutverk að ræða stöðu, horfur og viðbrögð við Covid-19 hjá sveitarfélögunum.

Í frétt um fundinn á vefsíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga segir að mjög góðar umræður hafi farið fram og að niðurstöður þeirra muni vera gott veganesti fyrir stjórn í samræðum við ríkið á næstu vikum.

Fundurinn var til þess að auka samráð við sveitarfélögin og mun sambandið án efa halda fleiri slíka fundi í framtíðinni segir ennfremur í fréttinni.

DEILA