Afkoma Arnarlax varð mun verri á fyrsta fjórðungi ársins en á sama tíma í fyrra. Framlegð á hvert framleitt kg af laxi féll úr 11.77 norskum krónum fyrir sama tímabil 2019 niður í 4.92 nkr. Er framlegðin um og innan við helmingur þess sem var á árinu 2019. Fram kemur að kostnaðurinn vegna laxadauðans hafi lækkað framlegðina um 7.07 nkr/kg.
Óveður í febrúar og laxadauði urðu til þess að slátra varð laxi fyrr en til stóð. Hvort tveggja, laxadauðinn og snemmslátrunin , leiddi til verri afkomu eins og framlegðartölurnar segja til um. Þá bættist við verðlækkun á mörkuðum vegna kórónaveirunnar.
Þetta kemur fram í upplýsingum frá Arnarlax en helsti eigandinn Salmar er skráður í norsku kauphöllina og gefur því þar afkomuupplýsingar fyrir fjárfesta.
Slátrað var 4.300 tonn á fyrstu þremur mánuðunum samanborið við 2.100 tonn árið áður. Fyrir vikið urðu tekjur tvöfalt hærri í ár en 2019 eða um 4 milljarðar króna í stað tæplega tveggja milljarða króna.
Búist er víð því að á öðrum ársfjórðungi verði slátrað minna magni og að framlegðin verði áfram lág. Áfram er búist við að framleiðsla ársins verði um 12.000 tonn.