Að hugsa í lausnum

Loksins eru leikskólarnir okkar í Ísafjarðarbæ að komast í eðlilegt horf. Hafa þeir verið lokaðir í rúman mánuð nema fyrir forgangsbörn, en þar er aðeins um örfá börn að ræða. Atvinnulífið hefur tekið stakkaskiptum upp á síðakastið og hefur starfsfólk þurft að aðlagast nýjum aðstæðum. Framlínufólk hefur mætt á sína vinnustaði, unnið oft undir brjáluðu álagi og staðið sína plikt fyrir samfélagið. Við höfum mörg verið heima og reynt að sinna vinnu okkar þaðan, samhliða því að sinna börnunum með öllum þeirra þörfum. Einhver þurftu að fara í skert vinnuhlutfall, sum hafa hreinlega þurft að loka sínum fyrirtækjum og síðan eru einstaklingar sem hafa þurft að taka sumarfríið sitt á meðan Covid-ástandið var sem verst. Það er því ljóst að sumarfrísplön margra hafa fokið út um gluggann.

Óvenjulegar aðstæður

Venju samkvæmt loka leikskólarnir í Ísafjarðarbæ í einn mánuð á sumrin og er það gert svo börn og starfsfólk fái sitt lögbundna sumarfrí. Það er hins vegar ekkert venjulegt við aðstæðurnar sem við erum í dag og höfum verið í sl. mánuði. Það væri því einstaklega óheppilegt ef við myndum halda okkur við sumarlokun leikskóla akkúrat í þann mund sem atvinnulífið er að komast á eitthvað skrið og börnin að komast í sína rútínu á ný. Sérstaklega þegar bæjarbúar hafa margir hverjir illa getað sinnt vinnu sinni á þessu tímabili. Ísafjarðarbær hefur ákveðið að bregðast við þessu og koma til móts við þá foreldra sem þurfa vistun fyrir börnin sín þegar sumarlokunin átti að eiga sér stað, sem er tímabilið frá 6. júlí til 4. ágúst. Foreldrar leikskólabarna ættu að hafa fengið tölvupóst varðandi þetta og geta sett sig í samband við skóla- og tómstundasvið Ísafjarðarbæjar ef þeir þurfa vistun fyrir börnin sín á þessum tíma.

Þessari aðgerð fylgja svo ákveðin tækifæri fyrir sveitarfélagið til að skapa sumarstörf fyrir háskóla- og menntaskólafólk, sem margir hverjir ganga ekki svo auðveldlega í sín venjulegu sumarstörf vegna Covid-19. Ísafjarðarbær ætlar sér því að axla sína ábyrgð í að aðstoða þennan hóp við að skapa sér tekjur fyrir komandi skólaár.

Ísafjarðarbær þjónar íbúum sínum

Von mín er sú að sem flestir bæjarbúar geti tekið sumarfrí með börnunum sínum eins og til stóð. Að þau geti notið þess að ferðast um Vestfirði sem og restina af Íslandi, skoðað náttúruperlurnar okkar sem venjulega eru þétt settnar af erlendum ferðamönnum. Þau sem þurftu aðstæðna vegna að breyta sumarfríinu sínu þurfa þó að minnsta kosti ekki að hafa áhyggjur af vistun leikskólabarna sinna.

Þegar samfélagið hefur gengið í gegnum krísu sem þessa er afar mikilvægt að sveitarfélögin festi sig ekki í ákveðnum venjum, bara af því að svona hefur þetta alltaf verið gert. Sveitarfélag þarf að sýna sveigjanleika, aðlaga þjónustu sína að aðstæðum og koma til móts við þá íbúa sem það þjónar. Þetta hefur Ísafjarðarbær vissulega gert og sýnir nú í verki með þessari aðgerð. Er ég afskaplega stolt af þeirri vinnu starfsmanna bæjarins. Með þessu sýnir Ísafjarðarbær að þar á bæ sé hugsað í lausnum til að mæta þörfum íbúa sinna.

 

Hafdís Gunnarsdóttir

Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ

DEILA