Teigsskógur: viðræður á lokastigi

Viðræður Vegagerðarinnar við landeigendur vegna lagningu nýs vegar um Gufudalssveit eru á lokastigi. Magnús Valur Jóhannsson, framkvæmdastjóri hjá Vegagerðinni sagði í samtali við Bæjarins besta að allir landeigendur hefðu fengið tilboð Vegagerðarinnar um greiðslu fyrir land undir veginn. Hafa þeir 2 – 3 vikur til svara og að þeim tíma loknum lægju fyrir hvaða landeigendur gengju til samninga. Í þeim tilvikum sem samningar takast ekki verður farið fram á eignarnámsheimild. Magnús hvaðst sæmilega vongóður um að samningar muni takast við flesta landeigendur.

Samkvæmt heimildum Bæjarins besta eru það einkum eigendur að jörðunum Gröf og Hallsteinsnesi sem munu vera tregir til samninga enda hafa þeir á fyrri stigum málsins lýst andstöðu við hina nýju veglínu um Þorskafjörðinn.