Óvissustig vegna snjóflóðahættu

Snjóflóð í Önundarfirði.

Óvissustig vegna snjóflóðahættu hefur verið í gildi á norðanverðum Vestfjörðum frá því í gærkvöldi.

Í gær var ANA-hríðarveður og talsverð snjósöfnun í fjöll, sérstaklega þegar leið á kvöldið.
Um miðja nóttina hlánaði á láglendi en áfram hefur verið frost í efri hluta fjalla.

Í nótt féllu snjóflóð á nokkrum stöðum, m.a. yfir veginn um Súðavíkurhlíð.

Á Ísafirði hefur iðnaðarhúsnæði verið rýmt og sorpmóttakan í Funa er lokuð vegna snjóflóðahættu. Einnig var fólk beðið um að yfirgefa einn sveitabæ í Bolungarvík í gærkvöldi.

Í morgun kl. 10:18 féll snjóflóð í Súgandafirði norðanmegin fjarðarins gegnt Suðureyri. Það var nokkuð breitt og fór fram í sjó á kafla og olli flóðbylgju sem skall á sjóvarnargörðum á Suðureyri og skvettist sjór yfir þá.
Snjóflóðið var líklega kraftminna en það sem féll 14. janúar og flóðbylgjan minni og sjávarstaða lægri.

DEILA