Oddi hf Patreksfirði að fullu eign heimamanna

Kjölfesta slhf. hefur komist að samkomulagi við aðra eigendur Odda hf. um sölu á 28,98% hlut sínum í félaginu. Oddi hf. verður því alfarið í eigu þeirra Sigurðar V. Viggósonar og Skjaldar Pálmasonar en Kjölfesta hefur verið hluthafi í Odda frá árinu 2014. Deloitte var ráðgjafi Kjölfestu við söluna.

 

Oddi hf. var stofnað á Patreksfirði árið 1967 í þeim tilgangi að vinna afla frá bátum á Patreksfirði. Frá þeim tíma hefur starfsemi félagsins tekið stakkaskiptum.  Félagið gerir út fiskiskipin Núp BA-69 og Patrek BA-64.  Félagið rekur í dag eigin útgerð, vinnslu og markaðsstarfsemi ásamt því að vera í samstarfi við sölufyrirtæki og fagaðila þar sem félagið selur afurðir undir eigin nafni.

 

Starfsmenn félagsins eru 69 talsins, um 45 í landvinnslu, 25 sjómenn og 4 á skrifstofu.

Kjölfesta er félag í eigu 14 fagfjárfesta þar af 12 lífeyrissjóða. Tilgangur Kjölfestu er að fjárfesta í meðalstórum og smærri fyrirtækjum á Íslandi og styðja þannig við sókn og framþróun íslensk atvinnulífs. Rekstraraðili félagsins eru ALM Verðbréf hf.

 

Skjöldur Pálmason, framkvæmdastjóri Odda hf.: OPO ehf., félag í eigu Sigurðar Viggóssonar og Skjaldar Pálmasonar, hefur keypt allan hlut Kjölfestu slhf. í Odda hf. og  þar með eiga Sigurður og Skjöldur allt hlutafé í félaginu. Samstarfið við Kjölfestu hófst fyrir 6 árum við endurfjármögnun félagsins eftir niðursveiflu við efnahagshrunið á Íslandi. Á þessum árum hefur félagið styrkt eignarstöðu sína ásamt því að fjárfesta í nýjum búnaði í fiskvinnslu og útgerð. Samstarf við Kjölfestu hefur verið árangursríkt og ánægjulegt og flutt félagið fram á veginn í flestum þáttum.  Nú  hvílir það á  eigendum og stjórnendum Odda að takast á við nýjar áskoranir og styrkja félagið og um leið samfélagið enn frekar.“

 

 

Ísak S. Hauksson, framkvæmdastjóri Kjölfestu slhf.:  „Árið 2014 fjárfesti Kjölfesta í útgerðarfélaginu Odda hf. í formi hlutafjáraukningar. Markmið hluthafa var að styrkja reksturinn í heimabyggð. Frá því Kjölfesta kom inn í félagið hefur verið unnið ötullega að því að styrkja rekstur félagsins og að renna styrkum fjárhagslegum stoðum undir félagið. Markmið Kjölfestu var að eiga eignarhlutinn í 5-7 ár. Nýlega náði Kjölfesta samkomulagi við núverandi stjórnendur og eigendur Odda um kaup á hlut Kjölfestu í Odda. Stjórn Kjölfestu ákvað að ganga að þeirra tilboði og er ávöxtun sjóðsins ágæt af fjárfestingunni.  Kjölfesta óskar stjórnendum og starfmönnum Odda velfarnaðar í von um að félagið verði áfram hornsteinn atvinnulífs á sunnanverðum Vestfjörðum.“

DEILA