Lýðskólinn á Flateyri frestar skólastarfi

Stjórn Lýðskólans á Flateyri ákvað í gær að kennslu við skólann yrði frestað frá páskum fram í ágúst. Til stóð að kenna tvær vikur eftir páska og ljúka síðan skólaárinu með útskriftarferð.

Kennsla við skólann hefur farið fram með hefðbundnum hætti eftir að framhalds- og háskólum var lokað vegna útbreiðslu koronaveirunnar, en skólinn hefur breytt hópastærðum og starfsemi mötuneytis í samræmi við leiðbeiningar yfirvalda heilbrigðis- og skólamála. Til þessa hefur Flateyri verið smitfrítt svæði og samskipti nemenda og íbúa út af svæðinu takmörkuð m.a. vegna veðurs og ófærðar.

Í ljósi þess að í næstu viku tekur við páskafrí þar sem stór hluti nemenda fer til síns heima, er ofangreind ákvörðun tekin með lýðheilsu- og sóttvarnarhagsmuni að leiðarljósi. Ekki þótti víst að hægt væri að tryggja áfram öryggi nemendahópsins þegar hann kæmi til baka á Flateyri eftir dvöl víða um land.

Þau tvö námskeið sem kenna átti eftir páska verða þess í stað kennd í ágúst og mun skólaárinu ljúka þá með útskriftarferð og útskriftarathöfn á Flateyri.

Þeir nemendur sem vilja vera áfram á Flateyri halda húsnæði sínu fram í maí og mun skólinn leitast við að hjálpa þeim við að undirbúa lífið eftir skólann og finna mögulega verkefni í samstarfi við sveitarfélagið og aðra staðbundna aðila.

„Við erum stolt af nemendahópnum okkar sem öðlast hefur ótrúlega reynslu þennan erfiða vetur. Stanslaus óveður, mesti snjór í áratugi, snjóflóð á þorpið og heimsfaraldur eru ekki atriði sem við vorum með í kynningarefni síðasta árs fyrir þetta skólaár! Eftir stendur samheldinn og sterkur hópur. Vetur í Lýðskólanum á Flateyri breytir lífi fólks, í þetta sinn etv. meira en við gerðum ráð fyrir. Í gegnum þessar hremmingar hefur hópurinn eflst við hverja dáð og enginn nemandi hætt námi. Við hittumst smitfrí og hress í ágúst til að klára þetta saman!“ segir Ingibjörg Guðmundsdóttir skólastjóri.

Búið er að opna fyrir umsóknir um skólavist næsta skólaár.