Landssamband veiðifélaga mótmælir fiskeldi í Ísafjarðardjúpinu

Landssamband veiðifélaga hefur sent frá sér sérálit um áhættumat Hafrannsóknastofnunar og mótmælir þar sérstaklega tillögu um að opna Ísafjarðardjúpinu að hluta til fyrir laxeldi í sjó.

Tillögur Hafrannsóknarstofnunar og ráðgjöf um laxeldi með hliðsjón af áhættu á erfðablöndum milli villts lax og eldislax voru lögum samkvæmt sendar til svonefndar samráðsnefndar til umsagnar. Sex sitja í samráðsnefndinni og er fulltrúi landssambands veiðifélaga einn af þeim.

Samráðsnefndin hefur fjallað um málið og skilað til Hafrannsóknarstofnunar sinni umsögn. innihald umsagnarinnar hefur ekki verið gert opinbert en fulltrúi landssambands veiðifélaga stóð ekki að umsögninni og hefur nú opinberað afstöðu veiðifélaganna sem vilja ekki að tillögur Hafrannsóknarstofnunar verði lagðar fyrir ráðherra óbreyttar.

Fulltrúi LV gerði ótal athugasemdir við áhættumatið og ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Meðal annars gerði hann athugasemd við að þau gögn og upplýsingar sem liggja að baki breytingum á gildandi áhættumat væru ófullnægjandi og að reynslutími á gildandi áhættumati væri alltof stuttur.

Í fréttatilkynningu Landssambands veiðifélaga segir að alvarlegasta athugasemdin  snúi  að tillögu Hafrannsóknastofnunar um laxeldi í Ísafjarðardjúpi, en stofnunin leggur til að leyft verði laxeldi  að 12.000 tonnum á ári utan línu frá Ögurnesi í Æðey.

„Í ekki eldra áhættumati en síðan 2017 komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að laxeldi í djúpinu skyldi ekki leyft vegna mögulegra mikilla neikvæðra áhrif á laxastofna þar. Nú hefur þessi sama stofnun komist að þeirri niðurstöðu að framleiða megi 12.000 tonn af norskum frjóum eldislaxi í Ísafjarðardjúpi. Þessi stefnubreyting er byggð á afar veikburða gögnum.“

Vísað er til þess að á árinu hafi fjórum sinnum verið tilkynnt um gat á eldiskvíum á Vestfjörðum, í laxeldi í Patreksfirði, Arnarfirði og Dýrafirði og regnbogasilungskví í Ísafjarðardjúpi og þau tilvik sýni að eldið sé ekki öruggt. Vill landssambandið að Umhverfisráðherra komi í veg fyrir að laxeldi verði leyft í Ísafjarðardjúpi.

„Umhverfisráðuneytið ber ábyrgð á málefnum sem varða náttúruvernd, þ.á m. mál sem varða líffræðilega fjölbreytni, verndun vistkerfa, búsvæða, tegunda og erfðaefnis. Stjórnvöld öll og þeir sem veita stofnunum og ráðuneytum forstöðu hverju sinni bera ríka ábyrgð þegar þeir leggja íslenska náttúru undir í svona veðmáli. Það kæmi Landssambandinu að minnsta kosti á óvart ef umhverfisráðuneytið lætur þessar fyrirætlanir um stórtækt laxeldi í Ísafjarðardjúpi óátaldar.“ segir í fréttatilkynningunni.